Fertugur maður frá Porsgrunn í Telemark-fylki í Noregi, Kjetil Melbye Mathisen, hlaut í dag fyrir Héraðsdómi Nedre Telemark eina þyngstu refsingu sem norsk hegningarlög heimila, 21 árs dóm með svokallaðri forvaring-viðbót – því réttarúrræði sem tekið var upp í Noregi árið 2001 og gerir refsivörslukerfinu kleift að halda háskalegustu bölmennum landsins bak við lás og slá til dauðadags.
Voru sakarefni þau, er ákæruvaldið brigslaði Mathisen um, í senn hrottafengin og til þess fallin að vekja almenningi viðbjóð og óhug, en hann hlaut dóm sinn í dag fyrir að hella bensíni yfir kærustu sína, Kine Einarsen, og bera eld að henni með banvænum afleiðingum. Þetta gerðist 9. september 2022.
Tæpu ári síðar, 17. júlí 2023, kyrkti hann vin sinn, Stig Kyrre Nybråten, á heimili Nybråtens og sambýliskonu hans. Var vinurinn helsta vitni lögreglu og saksóknara í rannsókn á andláti kærustunnar. Mathisen hafði þá enn ekki verið handtekinn.
Auk tveggja manndrápa ákærði Helene Holtvedt héraðssaksóknari Mathisen fyrir fjölda alvarlegra líkamsárása, annað ofbeldi, hótanir og kynferðismök með ólögráða barni á aldursskeiðinu 14 til 16 ára.
Sló héraðsdómur því föstu í dómi sínum, sem spannar 132 síður, að Nybråten hefði verið kyrktur og tók ekki trúanlega þá frásögn sakborningsins að vinur hans sálugi hefði fengið einhvers konar hiksta eða öndunarerfiðleika, hallað sér aftur í sófa á heimili sínu og verið allur er Mathisen gekk að honum til að kanna ástand hans.
Þvert á móti taldi rétturinn sannað að Mathisen hefði kyrkt Nybråten með klút sem fannst í sófanum er viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Í tilfelli kærustunnar, sem lést af brunasárum á sjúkrahúsi á þriðja degi eftir að kveikt var í henni á heimili þeirra Mathisens, hafnaði rétturinn þeim skýringum að Mathisen hefði í ógáti skvett bensíni yfir Einarsen og beðið hana í kjölfarið að fara og skola vökvann eldfima af sér inni á baðherbergi. Hefði hann svo farið á eftir til að athuga með afdrif hennar og eldhafið þá staðið á móti honum þegar hann gekk inn á baðherbergið.
Lagði Holtvedt saksóknari þær upplýsingar fram við aðalmeðferð málsins að framburður fjölda vitna auk niðurstaðna tæknirannsókna lögreglu benti eindregið til þess að ákærði hefði með fullum ásetningi kveikt í kærustu sinni á heimili þeirra.
„Kine Einarsen fékk hægan og kvalafullan dauðdaga,“ sagði saksóknari í réttarsalnum og voru dómendur fjölskipaðs héraðsdóms einhuga um að Mathisen hefði, örgeðja og í reiðikasti, borið eld að kærustu sinni á baðherberginu, vitandi að hún væri gegndreypt í bensíni.
„Rétturinn telur það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði bar eld að Einarsen með þeim ásetningi að stytta henni aldur,“ segir í dóminum. Einn dómari vildi leggja það til grundvallar refsiákvörðun að Mathisen hefði á ný borið eld að Einarsen úti í garði heimilis þeirra, en meirihlutinn taldi það ósannað.
Espen Refstie, sem annaðist málsvörn ákærða í héraði, krafðist sýknu auk þess sem skjólstæðingur hans neitaði sök í höfuðákæruatriðunum, tvöföldu manndrápi, og velflestum hinna.
Rökstuddi saksóknari kröfu sína um forvaring-dóm, það er dóm með mögulegri framlengingu afplánunar allt til æviloka sakamanns, teljist hætta á að hann brjóti af sér á ný, með einmitt því atriði – að mikil hætta teldist á slíkri endurtekningu og þörf krefðist þess að samfélagið nyti verndar gegn nýjum brotum og alvarlegum.
Dómkvöddu sérfræðingarnir Ove Westgård geðlæknir og Erik Wærnes sálfræðingur mátu andlegt ástand ákærða sem svo að hann væri haldinn djúpstæðri andfélagslegri persónuleikaröskun auk þess sem hann næði býsna hátt á mælikvarðanum yfir siðblindu (n. psykopati). Sammæltust þeir fræðingarnir um að algjört bindindi gagnvart hvers kyns vímugjöfum væri sú ráðstöfun sem affarasælust væri til að draga úr hættunni á frekari ofbeldisverkum ákærða.
Lagði héraðsdómur það mat til grundvallar, stutt áliti Westgårds og Wærnes, að persóna og háttalag ákærða einkenndist af stjórnsemi, grunnum ástríðukenndum, takmarkaðri sjálfsstjórn, skorti á samúð, mikilli hvatvísi og ábyrgðarleysi.
Taldi rétturinn fangelsisrefsingu – samanborið við forvaring, eða varðveislu – ekki tryggja samfélaginu nægilega vernd gagnvart hættueiginleikum ákærða eftir að afplánun hans lyki og dæmdi þar með 21 árs refsingu undir formerkjum framangreinds úrræðis og með fjórtán ára lágmarksafplánun. Táknar það að Mathisen getur fyrst eftir fjórtán ár sótt um reynslulausn. Á hinn bóginn getur kerfið haldið honum bak við lás og slá til æviloka – þar vegur mat geðlækna þyngst.
Refstie verjandi tilkynnti þegar í dag að dóminum yrði áfrýjað til lögmannsréttar.