Arne Bye, fyrrverandi yfirlæknir sveitarfélagsins Frosta í Þrændalögum í Noregi, hefur dregið allar játningar í kynferðisbrotamáli sínu til baka og krefst þess að verða sleppt úr gæsluvarðhaldi, en þar hefur hann setið síðan í febrúar.
Í dag rennur núgildandi gæsluvarðhaldsúrskurður skeið sitt á enda og mun lögregla þá fara fram á nýjan úrskurð héraðsdómara.
Bye svaraði til saka fyrir Héraðsdómi Þrændalaga þar sem hann sætti ákæru fyrir að nauðga 87 kvenkyns sjúklingum sínum á árabilinu 2004 til 2022 og gera myndskeið af háttsemi sinni með tólf myndavélum.
Lauk aðalmeðferð fyrir héraðsdómi í febrúar og var dómur ekki kveðinn upp fyrr en í júní vegna hins gríðarlega umfangs málsins, en sá hluti gagna þess sem var á skriflegu formi náði yfir 40.000 blaðsíður auk þess sem myndskeið læknisins töldu samtals 5.500 klukkustundir.
Féllst héraðsdómur á kröfur ákæruvaldsins, þeirra Eli Reberg Nessimo og Rikhard Haugen Lyng héraðssaksóknara, og dæmdi Bye til 21 árs fangelsisvistar, en þar sem ekki er enn að honum komið í biðröðinni eftir afplánun hjá norskum fangelsismálayfirvöldum þarf lögregla að fara fram á framlengt gæsluvarðhald í áföngum þar sem ekki er talið óhætt með tilliti til almannahagsmuna að yfirlæknirinn fyrrverandi gangi laus.
Fann héraðsdómur Bye sekan um 70 nauðganir auk þess að hafa í 82 tilfellum misnotað stöðu sína til að eiga kynferðislegt samneyti við sjúklinga. Játaði læknirinn við aðalmeðferð málsins að hafa nauðgað 21 konu og í 44 tilfellum misnotað stöðu sína. Viðurkenndi hann sakarábyrgð sína á þeim brotum.
Bye hefur nú áfrýjað dómi héraðsdóms til millidómstigsins lögmannsréttar auk þess að draga allar fyrri játningar til baka, þrátt fyrir að meðferð málsins fyrir héraðsdómi sé lokið og dómur upp kveðinn þar.
Ástæðuna fyrir því að Bye krefst þess að verða látinn laus úr gæsluvarðhaldi segir hann, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, vera þá að þar sé enginn vinnufriður fyrir hann til að búa sig undir málsmeðferðina fyrir lögmannsrétti.
„Umfang málsins, eins og það var lagt fyrir héraðsdóm, var 40.000 síður og gróft reiknað um 6.000 klukkustundir af upptökum. Þar að auki er ég með um það bil 10.000 síður af eigin athugasemdum,“ segir Bye við NRK og bætir því við að aðstæður í varðhaldinu séu honum óhagstæðar, þar hafi hann takmarkaðan aðgang að tölvu og málsgögnunum umfangsmiklu.
„Ég lít ekki svo á að ég beri refsiábyrgð í málinu, ég hef dregið allar fyrri játningar mínar til baka,“ segir hann, „ég hef aldrei séð hluta af upptökunum og aðstæðurnar í fangelsinu til að undirbúa áfrýjunarmálið eru vonlausar.“