Ákvörðun Írans um að slíta formlega samstarfi sínu við Alþjóðakjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna (IAEA) hefur vakið áhyggjur alþjóðasamfélagsins.
Ákvörðun íranskra stjórnvalda kemur í kjölfar tólf daga átaka milli Írans og Ísraels sem fordæmalausar loftárásir Ísraela og Bandaríkjamanna settu svip sinn á.
Ekki hafa borist fregnir af frekari kjarnorkuviðræðum Írans við Bandaríkin, enda samskipti milli ríkjanna stirð um þessar mundir.
Þann 25. júní, einum degi eftir að vopnahlé milli ríkjanna tók gildi, kaus yfirgnæfandi meirihluti löggjafarvalds Írans að stöðva samstarf við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina, og sú löggjöf hefur nú tekið gildi.
Að sögn íranskra fjölmiðla er tilgangur laganna sá að „tryggja fullan stuðning við áskapaðan rétt íslamska lýðveldisins Írans“ samkvæmt samningi um takmörkun á útbreiðslu kjarnavopna, með sérstaka áherslu á auðgun úrans.
Eftirlitsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hafa þar til nýlega haft aðgang að yfirlýstum kjarnorkurannsóknarstöðvum Írans, en staða þeirra er óviss í ljósi samstarfsslitanna.
Sendiherra Írans til Sameinuðu þjóðanna segir eftirlitsmennina örugga og stadda í Íran, en að þeim verði ekki lengur heimill aðgangur að kjarnorkurannsóknarstöðvum Írans.
Mikill uggur er innan alþjóðasamfélagsins vegna samstarfsslitanna, og hefur Þýskaland meðal annars kallað ákvörðun Írans „hrapallegt merki“.
Talsmaður ritara Sameinuðu þjóðanna segir ákvörðunina „augljóslega valda áhyggjum,“ en Antonio Guterres, ritari Sameinuðu þjóðanna, hafi ítrekað kallað eftir því að Íranir væru samstarfsfúsir Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Tammy Bruce, segir samstarfsslitin „óásættanleg“ í ljósi nýtilkomins tækifæris Írans til þess að „snúa við og feta veg friðar og velsældar“.