Fjórir særðust í hraðlest í suðurhluta Þýskalands í dag þegar maður réðst á þá með hættulegu vopni, að sögn þýsku lögreglunnar.
Maðurinn var handtekinn í kjölfarið en um 500 farþegar voru um borð í lestinni sem var á leið til Vínar. Árásin átti sér stað þegar hún var stödd nálægt þorpinu Strasskirchen í Bæjarlandi, um 70 kílómetrum frá landamærum Þýskalands og Austurríkis.
Fjórir hlutu minni háttar meiðsl en dagblaðið Bild greindi í fyrstu frá því að exi hefði líklega verið notuð til að ráðast á farþegana en síðar kom fram að líklega væri um hamar að ræða.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Bæjarlandi segir að tvítugur karlmaður frá Sýrlandi hafi ráðist á farþega. Hann var fluttur af lögreglu á sjúkrahús til aðhlynningar eftir að hann var yfirbugaður af farþegum lestarinnar.