Dönsk yfirvöld hafa neitað fjórum Grænlendingum sem ættleiddir voru til Danmerkur sem börn á sjötta til áttunda áratug síðustu aldar um bætur.
Þetta segir lögfræðingur fjórmenninganna, Mads Pramming, í samtali við fréttaveituna AFP.
Kalanguak Absalonsen er ein þeirra sem krafði danska ríkið bóta, en hún skilgreinir sjálfa sig „stolið“ barn vegna þess að fjölskylda hennar skildi ekki hvað ættleiðingin fól í sér.
Absalonsen fæddist inn í grænlenska inúítafjölskyldu árið 1971 og segir móður sína ekki hafa verið upplýsta um að „ef hún skrifaði undir myndi hún fyrirgera sér öllum rétti til að hitta mig“.
Í bréfi frá félagsmálaráðuneyti Danmerkur segir að ættleiðingarnar hafi átt sér stað með formlegu samþykki foreldranna.
Pramming segist ætla að fara með málið fyrir dóm, en skjólstæðingar hans hafa farið fram á bætur upp á 250.000 danskar krónur (4.771.000 íslenskar krónur) á mann.
Mannfræðingurinn Gitte Reimer, rektor Háskólans á Grænlandi, segir misskilninginn byggjast á menningargjá milli danskrar menningar og ættleiðingarlaga annars vegar og hins vegar hefðum inúíta.
Samkvæmt rannsóknum hennar voru 257 grænlensk börn ættleidd til Danmerkur með vafasömum hætti á sjötta til áttunda áratug síðustu aldar.
Árið 2020 báðu dönsk stjórnvöld 22 grænlensk börn afsökunar fyrir að þau hafi verið tekin frá heimilum sínum og flutt til Danmerkur árið 1951 og gáfu samhliða út skýrslu um sögu barnanna og afleiðingarnar sem flutningarnir til Danmerkur höfðu á líf þeirra.