Neitað um bætur – Ættleidd til Danmerkur sem börn

Um 257 börn voru ættleidd frá Grænlandi með vafasömum hætti …
Um 257 börn voru ættleidd frá Grænlandi með vafasömum hætti á sjötta til áttunda áratugnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dönsk yf­ir­völd hafa neitað fjór­um Græn­lend­ing­um sem ætt­leidd­ir voru til Dan­merk­ur sem börn á sjötta til átt­unda ára­tug síðustu ald­ar um bæt­ur.

Þetta seg­ir lög­fræðing­ur fjór­menn­ing­anna, Mads Pramm­ing, í sam­tali við frétta­veit­una AFP.

 Skil­grein­ir sjálfa sig „stolið“ barn

Kalanguak Absalon­sen er ein þeirra sem krafði danska ríkið bóta, en hún skil­grein­ir sjálfa sig „stolið“ barn vegna þess að fjöl­skylda henn­ar skildi ekki hvað ætt­leiðing­in fól í sér.

Absalon­sen fædd­ist inn í græn­lenska inúíta­fjöl­skyldu árið 1971 og seg­ir móður sína ekki hafa verið upp­lýsta um að „ef hún skrifaði und­ir myndi hún fyr­ir­gera sér öll­um rétti til að hitta mig“.

Í bréfi frá fé­lags­málaráðuneyti Dan­merk­ur seg­ir að ætt­leiðing­arn­ar hafi átt sér stað með form­legu samþykki for­eldr­anna.

Pramm­ing seg­ist ætla að fara með málið fyr­ir dóm, en skjól­stæðing­ar hans hafa farið fram á bæt­ur upp á 250.000 dansk­ar krón­ur (4.771.000 ís­lensk­ar krón­ur) á mann.

257 börn ætt­leidd með vafa­söm­um hætti

Mann­fræðing­ur­inn Gitte Reimer, rektor Há­skól­ans á Græn­landi, seg­ir mis­skiln­ing­inn byggj­ast á menn­ing­ar­gjá milli danskr­ar menn­ing­ar og ætt­leiðing­ar­laga ann­ars veg­ar og hins veg­ar hefðum inúíta.

Sam­kvæmt rann­sókn­um henn­ar voru 257 græn­lensk börn ætt­leidd til Dan­merk­ur með vafa­söm­um hætti á sjötta til átt­unda ára­tug síðustu ald­ar.

Árið 2020 báðu dönsk stjórn­völd 22 græn­lensk börn af­sök­un­ar fyr­ir að þau hafi verið tek­in frá heim­il­um sín­um og flutt til Dan­merk­ur árið 1951 og gáfu sam­hliða út skýrslu um sögu barn­anna og af­leiðing­arn­ar sem flutn­ing­arn­ir til Dan­merk­ur höfðu á líf þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert