Það vegur 18.400 tonn fullhlaðið, er 189 metrar á lengdina með 300 manns í áhöfn og ristir 9,8 metra niður í saltan sæ, fleyið sem formlega heitir USS Mount Whitney, en ber óformlega gælunafnið „fljótandi Pentagon“ og dregur þar nafn sitt af hinu fimmhyrnda húsnæði bandaríska varnarmálaráðuneytisins.
Þarna er komið flaggskip sjötta flota bandaríska sjóhersins og um leið fljótandi stjórnstöð hans, „command ship“ eins og það útleggst upp á ensku, og er statt í höfninni í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi eins og er, í heimsókn eftir þátttöku í NATO-heræfingunni Baltops sem stjórnað var úr brúnni hjá Colin Price skipstjóra sem ræðir við sænska ríkisútvarpið SVT.
Greinir Price frá því að Rússar hafi fylgst grannt með Baltops sem sænskur kafbátur tók einnig þátt í auk þess sem nokkrir sænskir sjóhermenn voru staddir um borð í USS Mount Whitney þegar skipstjórinn ræddi við ríkisútvarpið.
„Við höfum haft nokkra sænska fjarskiptamenn um borð síðan á æfingunni stóð, þeir eru hluti af mannafla NATO um borð,“ segir Price og greinir frá því að rússneskar herflugvélar hafi flogið nálægt skipi hans á meðan æft var í Eystrasaltinu. Ekki vill hann þó svara spurningu fréttamanns SVT um hve nálægt Rússarnir flugu.
Andrúmsloftið hefur verið spennuþrungið á Eystrasaltinu það sem af er sumars, skrifar SVT, og hafa skip hins svokallaða „skuggaflota“ Rússlands – yfirleitt úr sér gengin tankskip eða gömul hafrannsóknaskip við njósnir eða skemmdarverk á neðansjávarinnviðum – haft þar nokkra nærveru, stundum í fylgd rússneskra herskipa, auk þess sem hvort tveggja aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og Rússar hafa staðið þar fyrir æfingum.
Segir Price nærveru rússnesku herflugvélanna ekki hafa bakað áhöfn hins fljótandi „varnarmálaráðuneytis“ nokkrar áhyggjur og ekkert verið óeðlilegt við þá umferð. „Baltops fór fram í Eystrasaltinu miðju þar sem alþjóðlegt loftrými er yfir og þessar vélar geta flogið þar um að vild,“ segir skipstjórinn.
Sem fyrr segir var Baltops stjórnað frá USS Mount Whitney og segir Jonathan Desimone, yfirmaður slíkra stjórnunaraðgerða af hálfu skipsins, að meginverkefni áhafnarinnar sé að annast fjarskipti og starfrækja þau kerfi sem nýtt eru til að stjórna æfingum og raunverulegum styrjaldaraðgerðum.
USS Mount Whitney hefur verið á ferð um Eystrasaltið allan júnímánuð vegna æfingarinnar, en eins og mörg hinna stærri fleyja bandaríska sjóhersins er það komið til ára sinna.
Flikki þessu, sem tilheyrir hönnunarflokknum Blue Ridge og heitir í höfuðið á hæsta tindi Sierra Nevada-fjallgarðsins í Kaliforníu, var hleypt af stokkunum 8. janúar 1970, á 35 ára afmælisdegi rokkgoðsins Elvis Presley sem þá var enn í góðum gír, og hóf skipið formlega herþjónustu 16. janúar árið eftir með Gaeta á Ítalíu sem heimahöfn.
Þrátt fyrir að áhöfn sé almennt nálægt 300 manns eru vistarverur um borð í USS Mount Whitney fyrir allt að 930 manns og var það fyrst bandarískra herskipa til að bjóða upp á sérstaklega útbúnar vistarverur ætlaðar konum.
Vopnabúnaður USS Mount Whitney er takmarkaður, enda er það ekki hannað með bein styrjaldarátök í huga og allt að 155 stöður áhafnarinnar eru skipaðar óbreyttum borgurum sem ekki gegna herþjónustu. Skipið er búið tveimur Phalanx CIWS-byssuturnum með sjálfstýrðri miðun, tveimur 25 millimetra Bushmaster-fallbyssum og fjórum 12,7 millimetra hríðskotabyssum.
Vistir áhafnarinnar gera ráð fyrir 90 daga úthaldi og vatnshreinsistöð um borð getur framleitt tæplega 400.000 lítra á sólarhring af neysluvatni úr sjó. Eldsneytisbirgðir um borð eru tæplega 3,8 milljónir lítra miðað við fullfermi sem setja má í raunhæft samhengi með því að á því olíumagni gæti USS Mount Whitney siglt frá Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum til Mósambík við austurströnd Afríku og til baka til Norfolk, 35 daga ferðalag.
Að lokum má geta þess að „varnarmálaráðuneytið“ siglandi skartar tveimur ellefu tonna þungum akkerum sem hanga í rúmlega 300 metra löngum keðjum og vegur hvor keðja um sig mun meira en akkerin, eða tæp 25 tonn.
Military Africa (USS Mount Whitney í heimsókn í Lýbíu í maí)