Á annan tug manna eru særðir eftir umfangsmikla drónaárás Rússa á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, í nótt aðeins nokkrum klukkustundum eftir að símtal á milli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútsins Rússlandsforseta lauk án árangurs.
„Enn og aftur sýnir Rússland að það hefur engin áform uppi um að binda enda á stríðið og hryðjuverkin,“ segir Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, á samfélagsmiðlum.
Hann segir 23 hafi særst í árásinni en Rússar skutu 550 drónum og 11 eldflaugum og að sögn fulltrúa úkraínska flughersins er þetta umfangsmesta árás Rússa á Úkraínu.
„Pútín sýnir greinilega algjöra vanvirðingu sína gagnvart Bandaríkjunum og öllum sem hafa kallað eftir stríðslokum,“ segir Andriy Sybiga, utanríkisráðherra Úkraínu á samfélagsmiðlum.