„Það eru ekki mannréttindi að búa í Svíþjóð“

Ráðherra segir áformin ekki snúast um að „breyta skoðunum“, heldur …
Ráðherra segir áformin ekki snúast um að „breyta skoðunum“, heldur um að „halda uppi gildunum sem við höfum í Svíþjóð“. Ljósmynd/Colourbox

Svíþjóð stefn­ir nú að því að kanna gildi inn­flytj­enda í von um að bæta aðlög­un þeirra að frjáls­lyndu sam­fé­lagi lands­ins. Þetta seg­ir Simona Mohams­son, nýr mennta- og aðlög­un­ar­ráðherra Svíþjóðar.

Hægri­sinnuð rík­is­stjórn komst til valda í Svíþjóð árið 2022 og hét því að herða á út­lend­inga­lög­gjöf­inni og meðal ann­ars bæta aðlög­un inn­flytj­enda.

Simona Mohams­son seg­ir að sænska sam­fé­lagið sé frá­brugðið þeim sam­fé­lög­um sem inn­flytj­end­urn­ir koma frá og því get­ur oft verið flókið að aðlaga inn­flytj­end­ur. Nefn­ir hún að í Svíþjóð sé til dæm­is ekki feðraveldi.

„Við erum öfga­fullt land, á góðan hátt. Fyr­ir fólk sem kem­ur inn í sam­fé­lagið okk­ar get­ur verið svo­lítið erfitt að átta sig á því,“ sagði hún.

Ólík­ar skoðanir um skilnað, þung­un­ar­rof og sam­kyn­hneigð

Kann­an­ir sem fram­kvæmd­ar voru af World Value Sur­vey Rese­arch Group sýna að sum­ir inn­flytj­end­ur sem eru ný­komn­ir til Svíþjóðar hafa ólík­ar skoðanir en inn­fædd­ir Sví­ar, sér­stak­lega um mál eins og skilnað, kyn­líf utan hjóna­bands, þung­un­ar­rof og sam­kyn­hneigð.

Eft­ir 10 ár í Svíþjóð höfðu gildi þeirra þró­ast og voru meira í sam­ræmi við gildi inn­fæddra Svía.

„Tíu ár er alltof lang­ur tími. Það er heil kyn­slóð stúlkna sem fá ekki að velja hverj­ar þær vilja elska eða stráka sem geta ekki komið út úr skápn­um,“ sagði Mohams­son.

Könnuð verða gildi 3.000 manns, helm­ing­ur þeirra af sænsk­um bak­grunni og helm­ing­ur „ekki frá vest­ræna heim­in­um“.

„Niðurstaðan mun leiðbeina aðlög­un­ar­viðleitni okk­ar þaðan af.“

Vilja haldi uppi sænsk­um gild­um

Mohams­son seg­ir áætl­un­ina ekki snú­ast um að „breyta skoðunum“, held­ur um að „halda uppi gild­un­um sem við höf­um í Svíþjóð“.

Þeir sem kjósi að koma til Svíþjóðar beri ábyrgð á að reyna að verða hluti af sam­fé­lag­inu.

„Það eru ekki mann­rétt­indi að búa í Svíþjóð.“

Tekið við mörg­um flótta­mönn­um

Svíþjóð hef­ur tekið við mikl­um fjölda flótta­manna síðan á tí­unda ára­tugn­um og marg­ir þeirra sem voru á flótta komu frá lönd­um eins og Af­gan­ist­an, Íran, Írak, Sómal­íu, Sýr­landi og fyrr­um Júgó­slav­íu.

Eft­ir árið 2015 fjölgaði hæl­is­leit­end­um veru­lega og síðan þá hafa sænsk stjórn­völd, bæði vinstri- og hægri­sinnuð, hert á mála­flokkn­um.

Árið 2024 voru um 20 pró­sent af íbú­um Svíþjóðar fædd­ir í öðru landi sam­an­borið við um 11 pró­sent árið 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert