Þrír karlmenn hafa verið sakfelldir fyrir að kveikja í vöruhúsi í Lundúnum fyrir hönd rússneska málaliðahópsins Wagner. Fyrirtækið sem hafði starfsemi í húsnæðinu sendi hjálpargögn og gervihnattabúnað frá Starlink til Úkraínu.
Jakeem Rose, Ugnius Asmena og Nii Mensah voru fundnir sekir fyrir að hafa stofnað lífi fólks í hættu með íkveikjunni. Mikið tjón varð í vöruhúsinu eftir íkveikjuna eða tjón upp á rúmlega milljón pund.
Wagner-liðar greiddu mönnunum fyrir íkveikjurnar en það voru þeir Dylan Earl og Jake Reeves sem játuðu að hafa skipulagt brotið að fyrirmælum Wagner-liða.
Earl er fyrsti einstaklingurinn sem er dæmdur fyrir brot samkvæmt lögum um þjóðaröryggi sem samþykkt voru á breska þinginu árið 2023. Lögin voru samþykkt til að takast á við aukna hættu af fjandsamlegri starfsemi erlendra ríkja.
Við réttarhöld málsins kom fram að fleiri brot hefðu verið skipulögð í borginni að frumkvæði málaliðahópsins, þar á meðal íkveikjur á veitingastöðum og vínbúðum. Málaliðahópurinn Wagner er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök í Bretlandi.