Truflanir á GPS-staðsetningar- og leiðsögukerfinu gera nú áhöfnum sjófara á Eystrasalti lífið leitt, en þær lýsa sér í rangri staðsetningu skipa og báta, svo sem með þeim hætti að faratæki þessi virðist stödd uppi á þurru landi.
Þannig sýndist sænskri áhöfn ekki betur, af GPS-tækinu að ráða, en að hún væri á siglingu eftir götu í Kalínígrad, gamla prússneska virkinu frá 13. öld sem síðar féll undir Sovétríkin, en klofnaði frá þeim við fallið árið 1991 þegar hlutar Litáens og Hvíta-Rússlands skildu skyndilega að.
„Einhver vill trufla okkur á þessum hluta Eystrasaltsins. Hvers vegna er erfitt að segja til um,“ segir Kristoffer Hultgren við sænska ríkisútvarpið SVT, en hann er sérfræðingur í öryggismálum á sjó við Samfélagsöryggis- og viðbúnaðarstofnun Svíþjóðar, MSB.
Þar á bæ hafa eftirlitsdeildir tekið eftir reglulegum GPS-truflunum frá því síðla árs 2023 sem í byrjun höfðu meiri áhrif á flugumferð, en nú er svo komið að samgöngutæki á haffletinum finna mest fyrir óáraninni og eru þar tómstundabátar ekki undanskildir.
Svo rammt kveður að truflununum að sænska siglingamálastofnunin hefur sent frá sér aðvörun vegna málsins og bendir á að fylgjast megi með tilkynningum sjófarenda um truflanir á vefsíðunni GPSJAM.
Örðugt er að segja nákvæmlega til um hvaðan truflanirnar berast eða hvers vegna þær aukast reglulega, en hópur pólskra rannsakenda telur sig geta rakið að minnsta kosti hluta þeirra til svæðis rétt utan við Kalíníngrad. Frá þessu greinir vefsíðan DefenseNews.
„Mikilvægt er að gæta að því að hafa sjókort um borð í bátum og geta reiknað út staðsetningu eftir öðrum leiðum,“ segir Ella Sjöberg, talsmaður sjóbjörgunarsveitarinnar Sjöräddningssällskapet, en þangað hefur fjöldi tilkynninga um truflanir borist frá sjófarendum á Eystrasalti.