Lögregla bjargaði alls 1.194 hugsanlegum þolendum mansals og handtók 158 grunaða í samþættum aðgerðum á forræði Europol, Frontex og Interpol í 43 ríkjum í síðasta mánuði.
Meintu þolendurnir komu frá 64 löndum, en flestir voru frá Rúmeníu, Úkraínu, Kólumbíu, Kína og Ungverjalandi.
Rannsóknin teygir anga sína víða um heim, þar á meðal til Austurríkis, Brasilíu og Taílands.
Íslensk lögregluyfirvöld tóku þátt í aðgerðunum en hér á landi fundust 36 hugsanlegir þolendur. Flestir tengjast kynlífsmansali og er meirihlutinn konur. Ekki kom fram í tilkynningu lögreglunnar í morgun hvort einhver hefði verið handtekinn á Íslandi.
Yfir fimmtán þúsund komu að aðgerðunum á alþjóðavísu sem bera heitið Alþjóðlega keðjan (e. Global chain).
„Mörg fórnarlambanna hafa verið flutt yfir landamæri og jafnvel á milli heimsálfa, sem sýnir hve alþjóðavætt skipulagt mansal er,“ segir í yfirlýsingu Europol.
„Rannsóknir sýna að mikill meirihluti þolenda kynlífsmansals eru konur og fullorðið fólk, á meðan að mansal á börnum undir lögaldri tengist aðallega betli og þvingaðri þátttöku í glæpastarfsemi eins og vasaþjófnaði.“
Í einni aðgerð austurrísku lögreglunnar, þar sem átta konum var bjargað, voru sjö handteknir.
Hinir grunuðu, sex Rúmenar og einn Ungverji, voru með tengsl við rúmenskan glæpahóp sem starfaði í nokkrum ríkjum innan Evrópu, að sögn rannsakenda.
Þolendurnir voru þvingaðir í mansal með aðferð sem kölluð er elskhuga-aðferðin (e. lover-boy method).
Hún felur í sér að glæpamennirnir kynnist þolendunum og hefji rómantískt samband með þeim. Síðar þvinga mennirnir konurnar í kynlífsvinnu.
Í Brasilíu tókst lögreglunni að brjóta á bak aftur glæpahóp sem hneppti fólk í hald eftir að hafa lofað því starfi. Því næst voru þolendurnir sendir til Mjanmar í kynlífsmansal.
Lögreglan í Taílandi handtók tólf sem eru grunaðir um aðild að glæpahring sem heldur úti vinsælum samfélagsmiðlareikningi þar sem börn undir lögaldri eru gerð út í vændi.
Fíkniefna- og glæpaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir mansal hafa stóraukist frá árinu 2020. Samkvæmt skýrslu stofnunarinnar frá því í desember á síðasta ári hækkaði fjöldi hugsanlegra mansalsfórnarlamba úr ríflega 48 þúsund árið 2020 í tæplega 70 þúsund árið 2022.