Hugbúnaðarfyrirtæki Elons Musk, xAI, hefur beðist afsökunar á færslum gervigreindarforritsins Grok sem birtust í vikunni. Í færslunum dásamaði Grok meðal annars Adolf Hitler.
Fyrirtækið sagði færslurnar hafa birst í kjölfar uppfærslu sem átti að leiða til þess að Grok starfaði meira eins og manneskja.
Færslurnar birtust á samfélagsmiðlunum X og gaf ein þeirra í skyn að fólk með ættarnöfn af gyðinglegum uppruna væri líklegra til að dreifa hatursorðræðu á netinu.
Færslunum var eytt af X nokkrum klukkustundum eftir að þær birtust.
„Við biðjumst innilegrar afsökunar á þeirri hræðilegu hegðun sem margir upplifðu,“ sagði í færslu xAI sem birtist í dag á X.
Þá sagði að komið hefði verið í veg fyrir að slíkt kæmi fyrir aftur.
Breytingin á að hafa átt sér stað eftir að Grok var fyrirskipað að „svara alveg eins og manneskja“ og að „segja hlutina hreint út og ekki vera hrætt við að móðga fólk“.
Það hafi leitt til þess að Grok varð móttækilegt fyrir „öfgakenndum skoðunum“ og svaraði með „ósiðlegum og umdeildum skoðunum til að virkja notendur.“