Bandarískir öldungadeildarþingmenn hyggjast leggja fram frumvarp sem mun heimila Donald Trump Bandaríkjaforseta að beita gríðarlega þungum refsiaðgerðum gegn Rússlandi.
Trump hefur gefið til kynna að hann sé opinn fyrir frumvarpinu. Samband hans og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hefur stirnað að undanförnu.
Trump hefur greint frá því að hann muni gefa út „mikilvæga yfirlýsingu varðandi Rússland“ á morgun.
Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins, greindi frá því að frumvarpið nyti stuðnings meirihlutans í öldungadeildinni.
Að sögn Graham mun frumvarpið heimila Trump að „ráðast gegn efnahag Pútín, og öllum ríkjunum sem styðja stríðsvél Pútíns“.
Trump hefur ítrekað sagst vera „vonsvikinn“ út í Pútín og gefið í skyn að hann sé tilbúinn að þyngja refsiaðgerðir gegn Rússum í fyrsta sinn síðan hann tók við embætti.
„Þeir munu samþykkja mjög mikilvægt og áhrifaríkt refsiaðgerðafrumvarp, en það verður forsetans að ákveða hvort það verður nota það,“ sagði Trump í viðtali á fimmtudag.
Spurður hvort hann hefði áhuga á frumvarpinu sagði Trump: „Ég er að skoða það mjög gaumgæfilega“.
Graham sagði að frumvarpið gerði Trump kleift að leggja 500% tolla á Rússland og öll þau ríki sem aðstoða Rússa. Þar á meðal væru ríki sem keyptu vörur af Rússum svo sem Kína, Indland og Brasilía.
„Þetta er virkilega sleggja sem gerir Trump forseta kleyft að ljúka stríðinu.“