Frakkar hafa samþykkt að veita eyjunni Nýju-Kaledóníu aukið sjálfstæði og mun það því verða að sjálfstæðu ríki í ríkjasambandi við Frakkland.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti undirritaði samkomulag þess efnis við þarlend stjórnvöld. Hann lýsti samkomulaginu sem sögulegum áfanga í sögu samskipta ríkjanna.
Nýja-Kaledónía er staðsett í Kyrrahafi, úti fyrir ströndum Ástralíu og hefur verið á valdi Frakka frá árinu 1853 og verið skilgreind sem svokallað handanhafsumdæmi (overseas territory).
Það öðlaðist aukna sjálfstjórn árið 1998 en blóðug átök hafa ríkt um sjálfstæðismál í landinu síðan þá.
Samkvæmt frétt The Guardian er talið að á síðasta ári hafi átökin kostað landið um 2 milljarða evra og skorið 10% af vergri landsframleiðslu þess.
Mun Macron því hafa farið þá leið að gera landið svo gott sem sjálfstætt til að lægja þær miklu ófriðaröldur innan landsins.
Samkvæmt samkomulaginu verður ríki Nýju-Kaledóníu viðurkennt af stjórnarskrá Frakklands.
Báðar deildir franska þingsins munu koma saman síðar í ár til að greiða atkvæði um samþykki samningsins, sem síðan verður lagður fyrir Ný-Kaledóníubúa í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2026.