Sérstakur erindreki Bandaríkjanna, Keith Kellogg, er kominn til Kænugarðs til viðræðna eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkin myndu útvega Úkraínu nýtt Patriot-loftvarnarkerfi.
Bandarísk yfirvöld gáfu það út fyrr í júlí að þau myndu gera hlé á hluta vopnasendinga sinna til Úkraínu en síðan hefur Trump skipt um stefnu og gagnrýnt Vladimír Pútín Rússlandsforseta fyrir að gera auknar árásir á Úkraínu á sama tíma og friðarviðræður milli landanna undir forystu Bandaríkjanna stöðvuðust.
„Við bjóðum Keith Kellogg, sérstakan fulltrúa Bandaríkjanna, velkominn til Úkraínu,“ skrifaði Andriy Yermak, aðstoðarmaður Volodimírs Selenskís forseta, á Telegram í morgun og bætti við: „Friður í gegnum styrk er grundvallarregla Donalds Trump Bandaríkjaforseta og við styðjum þessa nálgun.“
„Við munum senda þeim Patriot-kerfi, sem þeir þurfa sárlega á að halda,“ sagði Trump við fjölmiðla í gær, án þess að tilgreina hversu mörg vopn yrðu send.
Trump bætti þó við að Bandaríkin myndu ekki greiða fyrir vopnin.
Á sama tíma og heimsókn Kelloggs til Úkraínu stendur yfir mun Bandaríkjaforseti funda með Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, í Washington.
Rússnesk yfirvöld hafa aukið loftárásir á Úkraínu undanfarna mánuði og sent hundruð árásardróna þangað nánast daglega.