Fyrrverandi ríkisstjóri New York-ríkis, Andrew Cuomo, ætlar að bjóða sig fram sem óháður frambjóðandi í borgarstjórakosningunum í nóvember eftir að hafa lotið í lægra haldi í forvali Demókrataflokksins í síðasta mánuði.
Þetta tilkynnti hann í myndbandi sem hann birti á X þar sem hann sagði: „Ég er í þessu til að vinna.“
Cuomo var ríkisstjóri New York á árunum 2011 til 2021 eða þar til hann hrökklaðist úr embætti í kjölfar þess að hann gerðist sekur um kynferðislega áreitni gegn nokkrum konum. Hann bauð sig fram í forvali demókrata í júní en fékk aðeins 36% atkvæða.
In it to win it. pic.twitter.com/1pr5obsVAu
— Andrew Cuomo (@andrewcuomo) July 14, 2025
Zohran Mamdani er borgarstjóraefni Demókrataflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í nóvember en hann sigraði forval demókrata með 43% atkvæða. Mamdani er múslimi af indverskum uppruna og lýsir sjálfum sér sem sósíalista.
New York er mikið vígi demókrata en ljóst er að hörð samkeppni verður um borgarstjórastólinn í haust. Cuomo og Mamdani munu meðal annars þurfa að sigra Eric Adams, núverandi borgarstjóra New York.