Indversk yfirvöld hafa fyrirskipað flugfélögum í landinu að skoða eldsneytisrofa á nokkrum gerðum Boeing-flugvéla í kjölfar flugslyss vélar á vegum Air India sem kostaði 260 manns lífið í júní.
Í bráðabirgðaskýrslu, sem gefin var út á laugardaginn af rannsóknarnefnd flugslysa á Indlandi, kom fram að slökkt hefði verið á eldsneytisrofanum rétt eftir flugtak með þeim afleiðingum að eldsneytisflæði stöðvaðist.
Í skýrslunni voru þó engar ályktanir dregnar um orsök slyssins en í henni kom fram að annar flugmaðurinn hefði spurt hinn af hverju hann hefði slökkt á eldsneytinu, og hinn flugmaðurinn svaraði því til að hann hefði ekki gert það.
Flugmálastjórn Indlands gaf í gær út tilskipun þess efnis að rannsaka skyldi læsingarnar á eldsneytisrofum í nokkrum gerðum Boeing-þota en ekki á að vera hægt að slökkva á rofunum eftir flugtak.
Forsvarsmenn Boeing hafa þegar tilkynnt flugrekendum að læsingar á eldsneytisrofum í þotum fyrirtækisins séu öruggar en nokkur indversk og alþjóðleg flugfélög hafa þegar hafið eigin skoðanir á eldsneytisrofum.
Indversk flugmálayfirvöld hafa nú gefið út að allir flugrekendur verði að ljúka slíkri skoðun fyrir 21. júlí.
Í bréfi til starfsmanna í gær sagði Campbell Wilson, forstjóri Air India, að rannsókn á slysinu stæði enn yfir og það væri óskynsamlegt að draga „ótímabærar ályktanir“.