Valgerður Birna Magnúsdóttir
Vinir barnaníðingsins Jeffrey Epsteins sendu honum klúrt afmælisskeyti í tilefni af fimmtugsafmæli hans fyrir rúmum tveimur áratugum. Einn þeirra var Bandaríkjaforsetinn Donald Trump, sem ýjaði að því að hann deildi leyndarmáli með Epstein, að því er Wall Street Journal greindi frá í gærkvöldi.
Forsetinn hótar nú málsókn gegn eiganda fréttamiðilsins og ritstjóra hans, en kröfur stuðningsmanna MAGA-hreyfingarinnar um að frekari gögn í málinu verði birt verða sífellt háværari.
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að bréfið hefði fundist í leðurbundnu myndaalbúmi sem samverkakona Epsteins Ghislaine Maxwell, sem nú er í fangelsi, útbjó í tilefni afmælisins árið 2003. Safnaði hún í það kveðjum frá vinum og vandamönnum kynferðisbrotamannsins, þar á meðal einni kveðju sem er undirrituð með nafni Trumps.
Skeytið er í umfjöllun WSJ sagt innihalda útlínu nakins kvenlíkama og texta sem settur er upp sem samtal á milli forsetans og Epsteins þar sem setningin „Við eigum ýmislegt sameiginlegt, Jeffrey,“ er eignuð forsetanum.
Undirskrift forsetans, Donald, birtist svo neðan við mitti konunnar teiknuðu í stað skapahára.
Skeytinu lýkur svo á orðunum: „Til hamingju með daginn – og megi hver dagur vera enn eitt dásamlegt leyndarmál.“
Trump harðneitaði því að hafa haft nokkuð með undirskriftina eða skissuna að gera í viðtali við Wall Street Journal á þriðjudagskvöld: „Þetta var ekki ég. Þetta er falsað. Þetta er falsfrétt Wall Street Journal,“ sagði hann.
„Ég hef aldrei á ævi minni skrifað svona mynd. Ég teikna ekki myndir af konum,“ er haft eftir forsetanum. „Þetta er ekki mitt málfar. Þetta eru ekki mín orð.“
Hann sagðist jafnframt vera reiðubúinn að lögsækja Robert Murdoch, eiganda WSJ, og ritstjóra miðilsins ef greinin yrði birt. „Ég mun lögsækja The Wall Street Journal rétt eins og ég lögsótti alla hina,“ er haft eftir forsetanum í greininni.
Varaforsetinn JD Vance gagnrýndi Wall Street Journal harðlega í X-færslu og segir stórfurðulegt að miðillinn hafi hvorki birt mynd af skeytinu né borið það undir ríkisstjórnina. Umfjöllunin sé „hreint og beint kjaftæði“.
Umfjöllunin hefur kynt enn frekar undir reiði í röðum fylgjenda Trumps sem upplifðu sig svikna þegar dómsmálaráðherrann Pam Bondi og aðrir aðilar innan ríkisstjórnarinnar lokuðu með minnisblaði á allar samsæriskenningar er vörðuðu Epstein og sögðu í kjölfarið að engin frekari gögn væri að finna í málinu.
Margir samstarfs- og stuðningsmenn forsetans standa andspænis honum í málinu og kalla eftir því að öll gögn verði gerð opinber, þeirra á meðal fyrrverandi varaforsetinn Mike Pence og talsmaður meirihluta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Mike Johnson. Stuðningsmenn hafa tekið til þess ráðs í reiði sinni að kasta MAGA-húfum sínum á brennandi bál samkvæmt umfjöllun The Guardian.
Bondi hefur sætt harðri gagnrýni vegna málsins, en í gegnum kosningabaráttuna lofuðu hún og aðrir því að komast til botns í málinu og birta öll gögn um það.
Forsetinn sagðist í Truth Social-færslu hafa fyrirskipað Bondi að birta öll viðeigandi gögn í málinu um vitnisburðinn fyrir ákærukviðdómnum, með fyrirvara um samþykki dómstóla, vegna þeirrar „fáránlegu fjölmiðlaathygli sem Jeffrey Epstein hefur fengið“.
Forsetinn hefur lítið gefið í ljós um vinskap sinn og Epsteins, en í samtali við New York magazine árið 2002 lofaði Trump Epstein í bak og fyrir og kallaði hann meðal annars „frábæran náunga“ og gaf í skyn áhuga hans á „konum í yngri kantinum“.
Trump heldur því fram að vinslit hafi orðið þeirra á milli áður en Epstein var sakfelldur fyrir milligöngu um vændi ólögráða barns og vændiskaup í Flórída árið 2008 og að þeir hefðu ekki talast við í fimmtán ár árið 2019 þegar Epstein var handtekinn í annað sinn.
Að sögn Epsteins sjálfs voru hann og Trump mestu mátar í tíu ár ef marka má hljóðupptökur af samtali hans við rithöfundinn Michael Wolff.
Þar segist Epstein hafa kynnt Trump fyrir núverandi eiginkonu sinni, Melaniu Trump, og að þau hafi fyrst stundað samfarir um borð í einkaflugvél Epsteins, Lolita-hraðlestinni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.