„Skógarmítill í Noregi er útbreiddastur frá Austur-Noregi og upp að Helgelands-ströndinni [í Nordland-fylki], hann finnst mjög víða um landið, en er algengastur með ströndinni,“ segir Yvonne Kerlefsen, líffræðingur og ráðgjafi hjá Flåttsenteret í Kristiansand, upplýsingamiðstöð um meðhöndlun þeirra sjúkdóma sem blóðsuga þessi ber manna á milli.
Skógarmítill (lat. Ixodes ricinus) er áttfætla og blóðsuga á spendýrum sem einna helst heldur til í gróðri. Í grein Erlings Ólafssonar skordýrafræðings, sem um árabil var eitt helsta átorítet landsins í skordýrafræðum, sem birtist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar árið 2009, segir að fyrsti skógarmítill sem fannst hérlendis hafi verið tekinn af þúfutittlingi er skotinn var í Surtsey 5. maí 1967. Hafi stöku mítlar tekið að finnast upp úr því.
Allar götur síðan hefur tegundin, sem leggst einkum á menn og hunda og sýgur úr þeim blóð, ratað með jöfnu millibili í íslenska fjölmiðla, en mítillinn er fjölmiðlaefni víðar um Norðurlönd. Í byrjun apríl greindu finnskir fjölmiðlar frá því að skógarmítill væri snemma á ferð þetta vorið og í Noregi líður varla það sumarið að sníkjudýr þetta rati ekki á síður blaða og vefmiðla.
Kerlefsen segir mítilinn ekki fara í manngreinarálit er kemur að þeim fjölda tegunda sem hann leggst á, en algengasti sjúkdómurinn sem þessi smávaxna liðfætla ber manna á milli er tvímælalaust lyme-sjúkdómur, sem bakterían Borrelia burgdorferi veldur, en hún berst í menn eftir bit sýkts mítils.
„Það er útbreiddur sjúkdómur, einkum í Suður-Noregi og hluta Vesturlandsins,“ segir líffræðingurinn og bætir því við að þorri sýktra sleppi vel. „Langflestir fá sýkingu og roða í húð og þar við situr. Þetta fá um það bil 7.000 Norðmenn ár hvert, en af og til berst sýkingin í önnur líffæri, svo sem taugakerfið, og því geta fylgt miklir verkir í liðum eða hnakka, lömun í andliti eða útlimum. Þarna eru á ferð sterk einkenni og mjög óþægileg,“ útskýrir Kerlefsen og bætir því við að í einstaka tilfellum geti sýkingin náð til vefja í hjarta og auga.
„Í fyrra fengu 650 Norðmenn alvarlegri sjúkdómseinkenni en roða í húð,“ segir hún og eykur því við aðspurð að í langflestum tilfellum sé lyme-sjúkdómur meðhöndlaður með sýklalyfjum. „Stærsta vandamálið er að fólk man ekki eftir mítilsbiti sem það fékk þegar það síðar byrjar að fá alvarlegri einkenni og tengir einkennin ekki við löngu liðið bit. Svo líður tíminn án þess að fólk leiti læknis vegna einkennanna og þá getur það lent í þessum verri afleiðingum,“ heldur Kerlefsen áfram.
Í verstu tilfellum geti ólánsamir setið uppi með varanlegan taugaskaða, en langflestir nái sér alfarið af lyme-sjúkdómi, um 95 prósent. Hinn algengasti mítlaborni sjúkdómurinn kallast TBE (e. tick-borne encephalitis) sem þýtt hefur verið mítilborin heilabólga á íslensku. Þar er um að ræða veirusýkingu sem leggst á miðtaugakerfið og líkurnar mun meiri á að tapa heilsunni en af völdum lyme-sjúkdóms.
„Það er allt annað mál,“ segir Kerlefsen, „þó er hægt að smitast af TBE án þess að veikjast, en þeir sem veikjast fá heilabólgu,“ heldur hún áfram og vísar til þess sem vísindatímaritið Lifandi vísindi nefndi „miðevrópska heilabólgu“ í grein sinni frá 15. júlí 2023 undir fyrirsögninni Skógarmítillinn: Hættulegasta dýr Norðurlanda.
„TBE er alvarlegt mál, þeim sjúkdómi geta fylgt alvarleg veikindi, mjög þrálátur höfuðverkur auk þess sem sjúklingurinn getur ruglast alvarlega í ríminu, fólk verður mjög veikt og TBE getur verið banvænn sjúkdómur, í fyrra voru þrjú dauðsföll hér í Noregi tengd sjúkdómnum,“ segir ráðgjafinn alvarlegur í bragði.
Lyme-sjúkdóm má meðhöndla með sýklalyfjum sem fyrr segir, en við TBE finnst engin lækning. Fyrir honum má hins vegar bólusetja sig og hefur þeim Norðmönnum, sem til þess úrræðis grípa, fjölgað undanfarið. „Þetta er ekki algengur sjúkdómur, TBE, tilfelli hans hafa aðeins greinst hér á Suðurlandinu og Austurlandinu,“ segir Kerlefsen sem talar frá hjarta Suður-Noregs, Kristiansand.
„Við höldum þess vegna ekki bólusetningum sérstaklega að ferðafólki sem ætlar sér til dæmis að ferðast um Vesturlandið og Norður-Noreg, en til dæmis Íslendingum sem ætluðu sér að koma í heimsókn og vera í skóglendi hér á Suður- og Austurlandinu ráðlegði ég að skoða alltént bólusetningu fyrir TBE,“ segir hún enn fremur og að lokum.
„Við höfum séð fjölgun tilfella síðustu ár og við vorum að greina tilfelli borreliu í fyrsta skipti í mítlum sem finnast hér á landi,“ segir Matthías Svavar Alfreðsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, við mbl.is og bætir því við aðspurður að tilfelli TBE-veiru hafi ekki fundist á landinu, en til standi að hefja skimun fyrir veirunni. „Við eigum fullt af efnivið á Keldum og næsta skref er bara að kanna hvort TBE-veira finnist í þessum mítlum sem við erum að safna af farfuglum,“ segir skordýrafræðingurinn enn fremur.
Matthías er aðalhöfundur nýútkominnar greinar í tímaritinu Parasites & Vectors sem ber yfirskriftina „Detection of Borrelia burgdorferi (s.l.) in Ixodes ricinus ticks collected in Iceland“ og fjallar um mítlabornu sjúkdómana tvo framangreindu á Íslandi og auknar áhyggjur af því að þeir stingi sér niður á landinu.
Ræða greinarhöfundar þá rannsóknarspurningu hvort skógarmítlar, sem fundist hafa á Íslandi, beri bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem veldur lyme-sjúkdómi, og hugsanlega aðra sjúkdómsvalda svo betur megi kortleggja þá hættu sem mönnum og dýrum stafi af mítilsbitum á landinu.
Byggist rannsóknaraðferðin á mítlum af fuglum sem veiddir voru í þessum tilgangi á suðausturhorni landsins árin 2018 og 2019 og voru skimaðir fyrir bakteríunni og öðrum sjúkdómsvöldum auk skimunar 133 áður fundinna mítla í vörslum Náttúrufræðistofnunar.
Niðurstaðan var að eftir skimun 1.209 mítla fannst bakterían Borrelia burgdorferi í 9,9 prósentum sýnanna, en engin tilfelli TBE-veiru. Klykkja greinarhöfundar út með því að þótt lyme-sjúkdómur geti ekki talist landlægur á Íslandi og skógarmítill teljist ekki hafa hér fasta búsetu sé hættan á smiti fyrir hendi.
Frekari rannsókna sé þörf auk þess sem brýnt sé að vekja athygli almennings á smithættu og efla samstarf sérfræðinga til að sporna við mítilbornum sjúkdómum á Íslandi.