Blóðsjúgandi áttfætla sækir í sig veðrið á Íslandi

Ekki þykir öllum mítillinn árennilegur eftir máltíð, hér má sjá …
Ekki þykir öllum mítillinn árennilegur eftir máltíð, hér má sjá dýrið stútfullt af blóði manns eða dýrs sem það hefur lagst á og sogið eins og tilberinn í þjóðsögunni. Ljósmynd/Erling Ólafsson

„Skóg­armít­ill í Nor­egi er út­breidd­ast­ur frá Aust­ur-Nor­egi og upp að Helg­e­lands-strönd­inni [í Nor­d­land-fylki], hann finnst mjög víða um landið, en er al­geng­ast­ur með strönd­inni,“ seg­ir Yvonne Kerlef­sen, líf­fræðing­ur og ráðgjafi hjá Flått­sent­er­et í Kristiansand, upp­lýs­inga­miðstöð um meðhöndl­un þeirra sjúk­dóma sem blóðsuga þessi ber manna á milli.

Skóg­armít­ill (lat. Ixodes ric­in­us) er átt­fætla og blóðsuga á spen­dýr­um sem einna helst held­ur til í gróðri. Í grein Erl­ings Ólafs­son­ar skor­dýra­fræðings, sem um ára­bil var eitt helsta át­orítet lands­ins í skor­dýra­fræðum, sem birt­ist á heimasíðu Nátt­úru­fræðistofn­un­ar árið 2009, seg­ir að fyrsti skóg­armít­ill sem fannst hér­lend­is hafi verið tek­inn af þúfu­titt­lingi er skot­inn var í Surts­ey 5. maí 1967. Hafi stöku mítl­ar tekið að finn­ast upp úr því.

All­ar göt­ur síðan hef­ur teg­und­in, sem leggst einkum á menn og hunda og sýg­ur úr þeim blóð, ratað með jöfnu milli­bili í ís­lenska fjöl­miðla, en mít­ill­inn er fjöl­miðlaefni víðar um Norður­lönd. Í byrj­un apríl greindu finnsk­ir fjöl­miðlar frá því að skóg­armít­ill væri snemma á ferð þetta vorið og í Nor­egi líður varla það sum­arið að sníkju­dýr þetta rati ekki á síður blaða og vef­miðla.

Flest­ir sleppa með skrekk­inn

Kerlef­sen seg­ir mít­il­inn ekki fara í mann­greinarálit er kem­ur að þeim fjölda teg­unda sem hann leggst á, en al­geng­asti sjúk­dóm­ur­inn sem þessi smá­vaxna liðfætla ber manna á milli er tví­mæla­laust lyme-sjúk­dóm­ur, sem bakt­erí­an Bor­relia burgdorferi veld­ur, en hún berst í menn eft­ir bit sýkts mít­ils.

„Það er út­breidd­ur sjúk­dóm­ur, einkum í Suður-Nor­egi og hluta Vest­ur­lands­ins,“ seg­ir líf­fræðing­ur­inn og bæt­ir því við að þorri sýktra sleppi vel. „Lang­flest­ir fá sýk­ingu og roða í húð og þar við sit­ur. Þetta fá um það bil 7.000 Norðmenn ár hvert, en af og til berst sýk­ing­in í önn­ur líf­færi, svo sem tauga­kerfið, og því geta fylgt mikl­ir verk­ir í liðum eða hnakka, löm­un í and­liti eða út­lim­um. Þarna eru á ferð sterk ein­kenni og mjög óþægi­leg,“ út­skýr­ir Kerlef­sen og bæt­ir því við að í ein­staka til­fell­um geti sýk­ing­in náð til vefja í hjarta og auga.

Yvonne Kerlefsen, líffræðingur og ráðgjafi hjá Flåttsenteret í Kristiansand, er …
Yvonne Kerlef­sen, líf­fræðing­ur og ráðgjafi hjá Flått­sent­er­et í Kristiansand, er fróð um mít­il­inn og þá sjúk­dóma er hann ber. Ljós­mynd/​Aðsend

„Í fyrra fengu 650 Norðmenn al­var­legri sjúk­dóms­ein­kenni en roða í húð,“ seg­ir hún og eyk­ur því við aðspurð að í lang­flest­um til­fell­um sé lyme-sjúk­dóm­ur meðhöndlaður með sýkla­lyfj­um. „Stærsta vanda­málið er að fólk man ekki eft­ir mít­ils­biti sem það fékk þegar það síðar byrj­ar að fá al­var­legri ein­kenni og teng­ir ein­kenn­in ekki við löngu liðið bit. Svo líður tím­inn án þess að fólk leiti lækn­is vegna ein­kenn­anna og þá get­ur það lent í þess­um verri af­leiðing­um,“ held­ur Kerlef­sen áfram.

Mít­ill­inn bíður hinna ólán­sömu í skóg­in­um

Í verstu til­fell­um geti ólán­sam­ir setið uppi með var­an­leg­an taugaskaða, en lang­flest­ir nái sér al­farið af lyme-sjúk­dómi, um 95 pró­sent. Hinn al­geng­asti mítla­borni sjúk­dóm­ur­inn kall­ast TBE (e. tick-borne encephalit­is) sem þýtt hef­ur verið mít­il­bor­in heila­bólga á ís­lensku. Þar er um að ræða veiru­sýk­ingu sem leggst á miðtauga­kerfið og lík­urn­ar mun meiri á að tapa heils­unni en af völd­um lyme-sjúk­dóms.

„Það er allt annað mál,“ seg­ir Kerlef­sen, „þó er hægt að smit­ast af TBE án þess að veikj­ast, en þeir sem veikj­ast fá heila­bólgu,“ held­ur hún áfram og vís­ar til þess sem vís­inda­tíma­ritið Lif­andi vís­indi nefndi „miðevr­ópska heila­bólgu“ í grein sinni frá 15. júlí 2023 und­ir fyr­ir­sögn­inni Skóg­armít­ill­inn: Hættu­leg­asta dýr Norður­landa.

„TBE er al­var­legt mál, þeim sjúk­dómi geta fylgt al­var­leg veik­indi, mjög þrálát­ur höfuðverk­ur auk þess sem sjúk­ling­ur­inn get­ur rugl­ast al­var­lega í rím­inu, fólk verður mjög veikt og TBE get­ur verið ban­vænn sjúk­dóm­ur, í fyrra voru þrjú dauðsföll hér í Nor­egi tengd sjúk­dómn­um,“ seg­ir ráðgjaf­inn al­var­leg­ur í bragði.

Halda ekki bólu­setn­ing­um að öll­um

Lyme-sjúk­dóm má meðhöndla með sýkla­lyfj­um sem fyrr seg­ir, en við TBE finnst eng­in lækn­ing. Fyr­ir hon­um má hins veg­ar bólu­setja sig og hef­ur þeim Norðmönn­um, sem til þess úrræðis grípa, fjölgað und­an­farið. „Þetta er ekki al­geng­ur sjúk­dóm­ur, TBE, til­felli hans hafa aðeins greinst hér á Suður­land­inu og Aust­ur­land­inu,“ seg­ir Kerlef­sen sem tal­ar frá hjarta Suður-Nor­egs, Kristiansand.

„Við höld­um þess vegna ekki bólu­setn­ing­um sér­stak­lega að ferðafólki sem ætl­ar sér til dæm­is að ferðast um Vest­ur­landið og Norður-Nor­eg, en til dæm­is Íslend­ing­um sem ætluðu sér að koma í heim­sókn og vera í skóg­lendi hér á Suður- og Aust­ur­land­inu ráðlegði ég að skoða alltént bólu­setn­ingu fyr­ir TBE,“ seg­ir hún enn frem­ur og að lok­um.

Fjölg­un til­fella á Íslandi

„Við höf­um séð fjölg­un til­fella síðustu ár og við vor­um að greina til­felli bor­reliu í fyrsta skipti í mítl­um sem finn­ast hér á landi,“ seg­ir Matth­ías Svavar Al­freðsson, skor­dýra­fræðing­ur hjá Nátt­úru­fræðistofn­un, við mbl.is og bæt­ir því við aðspurður að til­felli TBE-veiru hafi ekki fund­ist á land­inu, en til standi að hefja skimun fyr­ir veirunni. „Við eig­um fullt af efnivið á Keld­um og næsta skref er bara að kanna hvort TBE-veira finn­ist í þess­um mítl­um sem við erum að safna af far­fugl­um,“ seg­ir skor­dýra­fræðing­ur­inn enn frem­ur.

Matthías Svavar Alfreðsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, er arftaki goðsagnarinnar Erlings …
Matth­ías Svavar Al­freðsson, skor­dýra­fræðing­ur hjá Nátt­úru­fræðistofn­un, er arftaki goðsagn­ar­inn­ar Erl­ings Ólafs­son­ar þar á bæ og var enda ekki komið að tóm­um kof­un­um hjá Matth­íasi. Ljós­mynd/​Nátt­úru­fræðistofn­un

Matth­ías er aðal­höf­und­ur ný­út­kom­inn­ar grein­ar í tíma­rit­inu Paras­ites & Vectors sem ber yf­ir­skrift­ina „Detecti­on of Bor­relia burgdorferi (s.l.) in Ixodes ric­in­us ticks col­lected in Ice­land“ og fjall­ar um mítla­bornu sjúk­dóm­ana tvo fram­an­greindu á Íslandi og aukn­ar áhyggj­ur af því að þeir stingi sér niður á land­inu.

Ræða grein­ar­höf­und­ar þá rann­sókn­ar­spurn­ingu hvort skóg­armítl­ar, sem fund­ist hafa á Íslandi, beri bakt­erí­una Bor­relia burgdorferi, sem veld­ur lyme-sjúk­dómi, og hugs­an­lega aðra sjúk­dómsvalda svo bet­ur megi kort­leggja þá hættu sem mönn­um og dýr­um stafi af mít­ils­bit­um á land­inu.

Fannst í 9,9 pró­sent­um

Bygg­ist rann­sókn­araðferðin á mítl­um af fugl­um sem veidd­ir voru í þess­um til­gangi á suðaust­ur­horni lands­ins árin 2018 og 2019 og voru skimaðir fyr­ir bakt­erí­unni og öðrum sjúk­dóm­svöld­um auk skimun­ar 133 áður fund­inna mítla í vörsl­um Nátt­úru­fræðistofn­un­ar.

Niðurstaðan var að eft­ir skimun 1.209 mítla fannst bakt­erí­an Bor­relia burgdorferi í 9,9 pró­sent­um sýn­anna, en eng­in til­felli TBE-veiru. Klykkja grein­ar­höf­und­ar út með því að þótt lyme-sjúk­dóm­ur geti ekki tal­ist land­læg­ur á Íslandi og skóg­armít­ill telj­ist ekki hafa hér fasta bú­setu sé hætt­an á smiti fyr­ir hendi.

Frek­ari rann­sókna sé þörf auk þess sem brýnt sé að vekja at­hygli al­menn­ings á smit­hættu og efla sam­starf sér­fræðinga til að sporna við mít­il­born­um sjúk­dóm­um á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert