Karlmaður sem grunaður er um að hafa ekið bíl inn í mannfjölda í Hollywood fyrr í dag með þeim afleiðingum að 30 slösuðust er í haldi lögreglu.
„Hann var fluttur á sjúkrahús, hann er í aðgerð og ástand hans er stöðugt. Hins vegar er hann ekki frjáls ferða sinna, hann er í haldi lögreglunnar í Los Angeles, og á þessum tímapunkti erum við að skoða ákærur eins og tilraun til morðs og árás með banvænu vopni,“ sagði Lillian Carranza, yfirmaður há lögreglunni í Los Angeles, við fréttastöð CBS.
Atvikið átti sér stað um tvöleytið í nótt á staðartíma en samkvæmt slökkviliði borgarinnar eru þrír í lífshættu. Þá er ástand sex hinna særðu alvarlegt. Aðrir hlutu minni háttar áverka.
ABC News greinir frá því að ökumaður bifreiðarinnar hafi misst meðvitund.