Flóki Larsen
Úlfaldinn Cammie í Pakistan hefur lært að ganga á ný eftir að hún fékk gervifót.
Talið er að reiður landeigandi hafi skorið fót Cammie af í hefndarskyni þegar hún fór inn á land hans í leit að mat.
Var henni bjargað og hún flutt í dýraathvarf. Þar fékk hún gervifótinn.
Sá sem annast Cammie segir að hann hafi tárast úr gleði þegar úlfaldinn gekk á ný. Dýrið hafi verið illa sært eftir árásina og ekki treyst mönnum.
Myndband af úlfaldanum særða fór í dreifingu og stjórnvöld brugðust hratt við og fluttu Cammie í dýraathvarf, þar sem hún mun eiga heimili til frambúðar.
Þetta er í fyrsta skiptið sem gervifótur er settur undir svo stórt dýr í Pakistan, segir dýralæknirinn Babar Hussain.
„Við neyddum hana ekki til að ganga. Eftir að við settum gervifótinn undir hana biðum við í korter til tuttugu mínútur. Þá stóð hún alveg sjálf upp og byrjaði að ganga rólega,“ sagði Hussain við AFP-fréttaveituna,
Umönnunaraðilar Cammie segja að hún muni þurfa um 15–20 daga til að venjast gervifætinum algjörlega.