Átökum á milli trúarhópa í Sweida-héraði í suðurhluta Sýrlands virðist loks hafa linnt en yfir þúsund manns hafa látist í átökunum síðustu vikuna.
Átök á milli bardagasveita Drúsa og Bedúína brutust út síðasta sunnudag en síðan þá hafa íslömsk stjórnvöld í Sýrlandi, sem Drúsar hafa sakað um að standa með Bedúínum, og yfirvöld í nágrannaríkinu Ísrael, sem hafa heitið því að verja Drúsa, blandast inn í þau.
Sýrlenska mannréttindaeftirlitið gaf út í morgun að yfir þúsund manns hafi látist í átökunum, þar af 336 úr bardagasveitum Drúsa og 298 almennir borgarar sem tilheyra trúarhópnum. Eftirlitið segir að af þeim hafi 194 verið „teknir af lífi án dóms og laga af starfsmönnum varnarmála- og innanríkisráðuneytisins“.
Meðal hinna látnu voru einnig 342 starfsmenn öryggissveita stjórnvalda og 21 Bedúíni. Þar af voru þrír almennir borgarar sem „bardagamenn Drúsa tóku af lífi án dóms og laga“.
Á föstudag féllust ísraelsk og sýrlensk stjórnvöld á samkomulag um vopnahlé á milli ríkjanna en það virtist ekki duga til þar sem bardagar héldu áfram í gær.
Nú virðist átökum loks hafa linnt og er ró komin yfir svæðið, þó að óvíst sé hve varanleg hún verður.
Fyrrnefnt mannréttindaeftirlit í Sýrlandi hefur sagt að um miðnætti hafi verið komin á „viðkvæm ró“ í Sweida-héraði en yfirvöld hafa lokað vegum sem liggja að héraðinu til að koma í veg fyrir að fleiri bardagamenn Drúsa og Bedúína komist þangað.
Þessi frásögn rímar við frásagnir blaðamanna á svæðinu sem hafa ekki orðið varir við nein átök í nótt og segja að hjálparstarfsmenn undirbúi nú komu sína inn á svæðið.
Í Sweida-borg búa um 150.000 manns en íbúar þar hafa verið lokaðir inni á heimilum sínum án rafmagns og vatns og með takmarkaðar matarbirgðir í vikunni.