Farþegar ennþá á flugvellinum

Vél frá Iceland Express.
Vél frá Iceland Express. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Farþegar sem áttu að fljúga með Iceland Express frá París í Frakklandi til Keflavíkurflugvallar í gær klukkan 14:40 sitja nú enn á flugvellinum og bíða frekari frétta.

Anna Rakel Ólafsdóttir, einn farþeganna, segir að ferðalagið hafi verið gjörsamlega yfirgengilegt til þessa.

„Við komum hingað út á flugvöll í gær en þá var okkur tilkynnt að fluginu hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Við fengum ekki að vita neitt meira en eftir að hafa rætt við flugvallarstarfsmenn uppgötvuðum við að það væri eitthvað að vélinni og hún fengi ekki að fara í loftið strax.“

Eftir fimm tíma bið á flugvellinum voru farþegarnir fluttir á hótel við flugvöllinn. „Það var svona um sjö-leytið. Þá vorum við flutt á hótel og vorum bókuð í herbergi. Það leit ágætlega út þar til næsta rúta kom. Þá voru öll herbergi fyllt af fólki og margir þurftu að deila rúmum með fólki sem það hafði aldrei hitt áður. Ég var þarna með kærastanum mínum og dóttur okkar. Annar ferðafélagi okkar var í öðru herbergi og okkur tókst að færa hann yfir í okkar herbergi og par, sem búið var að bóka í okkar herbergi með okkur, fór í hans. Þá var einn strákur sem fékk hvergi svefnstað og hann endaði á því að deila rúmi með ferðafélaga okkar. Þetta var allt saman mjög furðulegt. Við vorum því fimm í fjögurra manna herbergi.“

Anna segir jafnframt að engar upplýsingar hafi borist frá Iceland Express. „Við sáum fréttir á mbl.is í gær þar sem var tilkynning frá Iceland Express um að öllum farþegum hefðu verið sendir tölvupóstar og smáskilaboð með upplýsingum. Það er ekki satt. Ég veit ekki um neinn einasta farþega sem fékk sendar upplýsingar. Ég skil ekki af hverju þeir sögðu þetta við fjölmiðla.“

Ævintýrinu var þó ekki lokið enn. „Okkur var svo hent út af hótelinu á hádegi í dag og þá fyrst heyrðum við frá Iceland Express að það yrði flogið klukkan 19 í kvöld. Núna er klukkan 19:24. Einhverjir farþegar tóku sig til og hringdu í eitthvert neyðarnúmer hjá Iceland Express og fengu þær upplýsingar að við myndum fljúga með einhverju finnsku flugfélagi heim. Það kom hins vegar á daginn að finnski flugmaðurinn hringdi sig inn veikan og núna skilst okkur að það verði flogið í síðasta lagi fyrir miðnætti.“

Hún segir að fólk reyni að líta á björtu hliðarnar en sárast þyki því upplýsingaleysið. „Það fór auðvitað í taugarnar á okkur að vera troðið saman í herbergi eins og í fangaklefa. En það er þetta að fá ekki að vita neitt sem er sárast. Og það er undarlegt að Iceland Express segi við fjölmiðla að þeir hafi sent tölvupósta og skilaboð - það er einfaldlega alrangt og flestir farþegar hér hafa birt fréttina á mbl.is á Facebook og sagt að það sé ekkert hæft í þessari tilkynningu.“

Hún segir að hún hafi upprunalega keypt miðann til að spara sér 30.000 krónur. „Ég er námsmaður hér í París og sá fyrir mér að ég gæti sparað 30.000 og keypt eitthvað handa dóttur minni. Ég hef aldrei séð jafnmikið eftir 30.000 krónum og núna.“

Franskir fjölmiðlar hafa fjallað um málið í dag meðal annars sjónvarpsstöðin France 2. og dagblaðið Parisien. 

Í Parisien kemur meðal annars fram að flugvélin, Boeing 757-200, hafi verið kyrrsett eftir að hún stóðs ekki skoðun tæknimanna. Það sama kemur fram á vef France 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert