Lenti klukkan 01:39

Iceland Express.
Iceland Express.

Flugvél Iceland Express sem átti að koma frá París um klukkan fjögur síðdegis á föstudag lenti loks í Keflavík klukkan 01:39 í nótt, tæpum 34 tímum seinna en áætlun hennar hljóðaði um.

Farþegar félagsins eru afar ósáttir með framgöngu Iceland Express í sinn garð en einu upplýsingarnar sem þeir fengu frá félaginu komu í hádeginu í gær um að vélin færi klukkan sjö um kvöldið að frönskum tíma, klukkan 17 að íslenskum tíma. Hún fór síðan í loftið skömmu fyrir klukkan eitt í nótt að frönskum tíma. 

Engar veitingar voru í boði um borð í flugvélinni á heimleiðinni fyrir utan eitthvað lítilræði af vatni sem var til í upphafi ferðar.

Aðfararnótt laugardags voru farþegar sendir á hótel við Charles de Gaulle flugvöllinn eftir fimm klukkustunda bið á flugvellinum án nokkurra skýringa. Hins vegar voru ekki næg herbergi fyrir alla og því eitthvað um að ókunnugir þyrftu að deila herbergjum.

Í gær var síðan farþegum boðið upp á pizzusneið í hádeginu og samloku með skinku og osti um kvöldið. Ein sneið á mann. Ekki máttu farþegar yfirgefa flugstöðvarbygginguna á meðan þeir biðu þar sem þeim var tjáð að vélin gæti farið í loftið með mjög skömmum fyrirvara.

 Í frönskum fjölmiðlum í gær kom fram að flugmálayfirvöld á Charles  de Gaulle hefðu synjað áhöfn flugvélar Air Astraeus að fara í loftið þar sem flugvélin stóðst ekki skoðun á flugvellinum. Fjallað var um málið bæði í ljósvakamiðlum og dagblöðum í Frakklandi í gær. 

Flugvélin sem flutti farþegana loks heim í nótt var frá finnska flugfélaginu Air Finland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert