Ýmiskonar bilanir komu í ljós

Iceland Express.
Iceland Express.

Við skyndiskoðun á Charles de Gaulle flugvellinum í París á föstudag komu í ljós ýmiskonar bilanir á flugvél Astraeus sem annast flug fyrir Iceland Express. Því var vélinni meinað að taka á loft fyrr en viðgerð væri lokið. Farþegarnir komust til Íslands einum og hálfum sólarhring á eftir áætlun.

Líkt og fram kom í samtali við Matthías Imsland, forstjóra Iceland Express í gær gekk illa að finna nýja þotu í staðinn fyrir þá sem bilaði.

Hann segir jafnframt að starfsmenn Iceland Express séu slegnir yfir því hversu erfiðlega gekk að fá nýja þotu. „Við erum einnig ósátt við þá þjónustu sem farþegar okkar fengu í París. Við munum fara yfir það með þjónustufyrirtæki okkar í París og tryggja að þjónustan verði betri í framtíðinni.“

Samkvæmt upplýsingum frönsku flugmálastjórnarinnar hefur sérstakt eftirlit, svonefnt SAFA-verkefni, verið haft frá árinu 1996 með erlendum flugvélum sem fljúga til landa ESB.

Algengt að athugasemdir séu gerðar við flugvélar

Á vegum þess starfar nokkurs konar flugöryggislögregla innan frönsku flugmálastjórnarinnar. Á árunum 2003 til 2009 skyndiskoðuðu eftirlitsmenn hennar frá 1200 og upp í 2780 þotur á ári. Einhvers konar – og misjafnlega alvarlegar – athugasemdir þurfti að jafnaði að gera vegna fjórðu hverrar þotu.

„Flugvél Astraeus sætti skyndiskoðun öryggiseftirlits frönsku flugmálastjórnarinnar með tilliti til hins svonefnda „svarta lista“ Evrópusambandsins yfir flugrekendur sem ekki fullnægja öryggiskröfum. Í ljós komu ýmiss konar bilanir sem gerðu að verkum að ekki var hægt að leyfa henni að halda í loftið fyrr en gert hefði verið við þær.“

 Þetta sagði talsmaður frönsku flugmálastjórnarinnar (DGAG) við Morgunblaðið er það spurðist fyrir um ástæður þess að þotu Iceland Express (Astraeus airlines) var meinað að fara í loftið til Íslands sl. föstudag.

 - En lendir félagið á þessum svarta lista?

„Nei, alls ekki, þetta voru bara vélrænar bilanir sem laga þurfti til þess að hún fengi að fljúga á ný, yrði flugfær.“

 - Geturðu nefnt einhver dæmi um hvað var bilað í þotunni?

 „Nei, ég get heldur ekki sagt þér hverjar þessar bilanir voru. Á þessu stigi er það trúnaðarmál milli okkar og Astraeus Airlines annars vegar, og hins vegar  flugmálastjórna Bretlands og Íslands sem einnig hafa verið upplýstar og tilkynnt um skoðunina og niðurstöður hennar“.

Talsmaðurinn franski, sagði að þotan hefði fengið að fara til Bretlands á laugardagskvöld í svonefndu ferjuflugi hálfum öðrum sólarhring eftir að hún var kyrrsett. Í ferjuflugsheimildinni hafi falist, að enginn hafi mátt vera um borð aðrir en flugmenn hennar tveir. Þar yrði lokið við viðgerð og þotan síðar tekin til flughæfisskoðunar á ný þar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert