Sýknað af bótakröfu vítisengla

mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af bótakröfu tveggja norskra vítisengla vegna frávísunar þeirra frá landinu. Segir í dómi héraðsdóms að koma þeirra hingað til lands hafi falið í sér raunverulega og alvarlega ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi

Útlendingastofnun ákvað að vísa Jan Anfinn Wahl, sem kom til Íslands með flugi frá Ósló 5. febrúar 2010, samdægurs úr landi með vísan til laga um útlendinga. Eins var Leif Ivar Kristiansen, sem kom til landsins 8. febrúar 2010, vísað úr landi.

Wahl kærði ákvörðunina til dóms- og kirkjumálaráðherra 17. febrúar 2010 sem staðfesti hana með úrskurði 16. júní 2010. Wahl taldi ákvörðunina hafa verið ólögmæta og krafðist þess að fá greiddar 2.903 norskar krónur (um 60.000 íslenskar kr.) í skaðabætur og eina milljón kr. í miskabætur.

Hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi í gegnum síma, með aðstoð dómtúlks. Hann var þá staddur í haldi lögreglu þar sem hann var stöðvaður við komu til landsins kvöldið fyrir aðalmeðferð málsins.

Vildi heimsækja félaga í Fáfni MC

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Wahl hafi lýst ferð sinni til landsins í febrúar 2010 þannig að staðið hefði vel á hjá sér og hann hefði viljað heimsækja félaga í Fáfni MC. Heimsóknin hefði ekkert haft að gera með inngöngu þeirra í Hells Angels.

Wahl telur hættumat ríkislögreglustjóra frá 5. febrúar 2010, sem Útlendingastofnun byggði ákvörðun sína um frávísun á, vera ófullnægjandi. Í því sé að finna órökstuddar fullyrðingar um MC Iceland, Hells Angels og tengsl þeirra.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra vann umrætt hættumat í tilefni af komu stefnanda til landsins 5. febrúar 2010.

Héraðsdómur féllst ekki á að annmarkar væru á hættumatinu þannig að ekki yrði á því byggt.

„Það er lögbundið hlutverk greiningardeildar ríkislögreglustjóra að framkvæma slíkt hættumat og verður ekki talið að nauðsyn beri til þess að heimildir fyrir upplýsingum í matinu séu tilgreindar, en hafa verður í huga að um viðkvæmar trúnaðarupplýsingar getur verið að ræða þar sem hagsmunir standa gegn því að upplýst sé um heimildir. Þá byggir matið á ýmsum þekktum staðreyndum og upplýsingum um stöðu vélhjólasamtakanna MC Iceland í aðildarferli að Hells Angels,“ segir í dómi héraðsdóms.

Harðsvíraðir, þaulskipulagðir og hættulegir glæpamenn

„ Í hættumatinu kemur fram að algengt sé að félagar í Hells Angels samtökunum hafi hlotið refsidóma fyrir alvarleg afbrot og margir ofbeldismenn séu þeirra á meðal. Það sama eigi við um nokkra félaga í MC Iceland. Með samstarfi íslensku samtakanna við Hells Angels hafi því hópur manna hér á landi efnt til formlegrar samvinnu við aðila sem séu í mörgum tilvikum harðsvíraðir, þaulskipulagðir og hættulegir glæpamenn. Auki þessi tengsl hættu á að íslenskir félagsmenn í Hells Angels taki upp aðferðir og starfshætti erlendra félaga. Inngönguferli MC Iceland hafi verið stýrt frá Noregi og uppbygging íslenskrar deildar Hells Angels hafi um flest verið í samræmi við forskriftir Hells Angels. Þá hafi félagar í MC Iceland gengist undir vald Hells Angels. Til þess að hljóta fulla aðild þurfi MC Iceland að sýna fram á að starfsemi og skipulag sé í samræmi við kröfur Hells Angels. Þetta auki hættuna á skipulagðri brotastarfsemi af hálfu íslensku samtakanna, enda kunni krafa um að þau taki upp aðferðir og starfshætti Hells Angels að koma fram af þeirra hálfu. Þá er vísað til mannskæðra átaka í Danmörku sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi innflytjendagengja og vélhjólamanna. Stjórnvöld á Norðurlöndum líti á skipulögð glæpasamtök vélhjólamanna á borð við Hells Angels sem vaxandi samfélagsógn,“ segir ennfremur.

Fram kemur að ríkislögreglustjóri telji að vélhjólasamtökin Hells Angels stundi skipulagða brotastarfsemi. Við mat á því hafi verið stuðst við skilgreiningu Europol. Þá hafi í febrúar 2010 verið talið liggja fyrir að MC Iceland væri á lokastigi inngönguferlis hjá samtökunum, en í dag sé það orðið fullgildur meðlimur þeirra. Skipulögð glæpastarfsemi sé litin mjög alvarlegum augum, enda ljóst að hún beinist gegn almannahagsmunum og grafi undan öryggi borgaranna. Reynir lögregla því eftir fremsta megni að stemma stigu við útbreiðslu hennar.

Ógn við almannaöryggi

Wahl viðurkenndi við skýrslutöku hjá lögreglu að vera félagsmaður í Hells Angels-samtökunum í Drammen í Noregi. Hann lýsti því einnig að meðal þess sem hann hygðist gera í ferð sinni hingað til lands væri að hitta kunningja sína í vélhjólasamtökunum Fáfni, eða MC Iceland. Hafði hann meðferðis fatnað merktan Hells Angels.

„Verður því talið liggja fyrir að heimsókn stefnanda hingað til lands hafi tengst aðild MC Iceland að Hells Angels-samtökunum. Telja verður að framangreind tengsl stefnanda við samtökin hafi í för með sér þátttöku í starfsemi þeirra og að með henni hafi hann tekið afstöðu með starfsemi og markmiðum samtakanna. Fyrir lá að íslensku samtökin voru á lokastigi inngönguferlis í vélhjólasamtökin. Heimsókn stefnanda var því til þess fallin að greiða fyrir inngöngunni, sem leiðir til aukinna ítaka samtakanna hér á landi og aukinnar hættu á skipulagðri brotastarfsemi. Verður því talið að koma stefnanda hingað til lands hafi falið í sér raunverulega og alvarlega ógn við allsherjarreglu og almannaöryggi,“ segir í dómi héraðsdóms.

Dómur vegna kæru Kristiansens

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert