Langur brotaferill Sverris Þórs

Íslend­ing­ur­inn sem er grunaður um að aðild á inn­flutn­ingi á um 46.000 e-töfl­um til Bras­il­íu heit­ir Sverr­ir Þór Gunn­ars­son. Töfl­urn­ar fund­ust í far­angri 26 ára gam­all­ar bras­il­ískr­ar konu, sem kom til lands­ins frá Lissa­bon í Portúgal. Hún var stöðvuð á Tom Jobim flug­vell­in­um í borg­inni síðastliðinn mánu­dag. Þetta er mesta magn e-taflna sem yf­ir­völd hafa lagt hald á á um­rædd­um flug­velli.

Kon­an hef­ur verið yf­ir­heyrð og þá kom fram að hún hafi ætlað að hitta kær­asta sinn, sem er Bras­il­íumaður, og Sverri Þór á kaffi­húsi í Ipanema. Eins og fram hef­ur komið fór lög­regl­an í Bras­il­íu á staðinn og hand­tók Sverri Þór og Bras­il­íu­mann­inn á mánu­dag­inn.

Við hús­leit í íbúð Bras­il­íu­manns­ins fannst reiðufé, maríjú­ana og LSD. Þá var fram­kvæmd leit á hót­el­her­bergi, sem Sverr­ir Þór dvaldi á, og þar fannst hass. Lög­regl­an seg­ir að Sverr­ir Þór hafi komið til Bras­il­íu með sama flugi og kon­an, þ.e. frá Lissa­bon. Hon­um tókst hins veg­ar að kom­ast í gegn­um eft­ir­litið með hassið.

Við hand­tök­una reyndi Sverr­ir Þór að villa á sér heim­ild­ir með því að þykj­ast vera ann­ar ís­lensk­ur maður. Mbl.is hef­ur staðfest­ar heim­ild­ir fyr­ir því að sá hand­tekni sé Sverr­ir Þór.

Komst ung­ur í kast við lög­in

Sverr­ir Þór Gunn­ars­son fædd­ist árið 1972 og á lang­an og af­brota­fer­il að baki. Hann var ekki nema 16 ára gam­all þegar hann var fyrst færður fyr­ir dóm­ara. Næstu árin á eft­ir kom hann ít­rekað til kasta yf­ir­valda vegna um­ferðar- og fíkni­efna­brota. Upp úr tví­tugu virðast af­brot Sverr­is Þórs hafa orðið skipu­lagðari en frá ár­inu 1991 til árs­ins 1995 hlaut hann fjóra refsi­dóma fyr­ir þjófnað, fjár­svik og fíkni­efna­brot. Hann komst ung­ur til met­orða í und­ir­heim­um Reykja­vík­ur þar sem hann er þekkt­ur und­ir viður­nefn­inu Sveddi tönn.

Fékk 7 ára dóm í stóra fíkni­efna­mál­inu

Sverr­ir Þór er þó þekkt­ast­ur sem einn af höfuðpaur­un­um í stóra fíkni­efna­mál­inu svo­kallaða í kring­um alda­mót­in. Málið fékk mikla at­hygli í fjöl­miðlum á sín­um tíma enda vakti það óhug al­menn­ings hve skipu­lögð og um­fangs­mik­il brot­in voru. Í fe­brú­ar árið 2001 dæmdi Hæstirétt­ur Sverri Þór í sjö og hálfs árs fang­elsi fyr­ir aðild hans að stóra fíkni­efna­mál­inu  auk þess að gera upp­tæk­ar hjá hon­um 21,4 millj­ón­ir króna. Málið var eins­dæmi á sín­um tíma og snér­ist um stór­felld­an inn­flutn­ing á fíkni­efn­um og skipu­lagt pen­ingaþvætti. Sak­born­ing­ar í mál­inu voru 19 tals­ins en Sverr­ir Þór og Ólaf­ur Ágúst Ægis­son, sem var dæmd­ur til 9 ára fang­elsis­vist­ar, fengu þyngstu dóm­ana. Aldrei áður höfðu svo þung­ir dóm­ar fallið í fíkni­efna­máli hér á landi.

Í um­fjöll­un Héraðsdóms Reykja­vík­ur um þátt Sverr­is í stóra fíkni­efna­mál­inu seg­ir að brot hans hafi verið þaul­skipu­lögð. Þau hafi varðað inn­flutn­ing og kaup og sölu mik­ils magns fíkni­efna af flest­um gerðum þar á meðal fíkni­efna með mikla hættu­eig­in­leika svo sem e-töfl­ur.

Málið var gríðarlega um­fangs­mikið og bæði fíkni­efna­deild lög­regl­unn­ar í Reykja­vík og efna­hags­brota­deild Rík­is­lög­reglu­stjóra fengu auka fjár­veit­ingu frá dóms­málaráðuneyt­inu vegna rann­sókn­ar máls­ins.

Um­fangs­mikið pen­ingaþvætti

Í kjöl­far lög­reglu­rann­sókn­ar á stóra fíkni­efna­mál­inu var í fyrsta skiptið ákært og sak­fellt fyr­ir pen­ingaþvætti á Íslandi. Í sér­stöku dóms­máli sem fjallaði aðeins um þá hlið máls­ins er snéri að pen­ingaþvætti voru tveir menn sak­felld­ir árið 2001 af fjöl­skipuðum héraðsdómi Reykja­vík­ur fyr­ir að hafa tekið við fjár­mun­um og lausa­mun­um sem þeir vissu að voru ávinn­ing­ur fíkni­efnaviðskipta Sverr­is Þórs. Hæstirétt­ur staðfesti dóm­inn sama ár.

Pen­ing­un­um hafði að mestu leyti verið ætlað að koma sem greiðsla fyr­ir hlut Sverr­is Þórs í kjötvinnslu­fyr­ir­tæk­inu Rimax ehf. sem hinir dæmdu menn áttu og ráku.

Í dómn­um var með ótví­ræðum hætti dæmt refsi­vert að veita brot­a­starf­semi liðveislu til dæm­is með því að flytja ávinn­ing af henni eða geyma pen­inga.

Grunaður um að tengj­ast smygli til Íslands und­an­far­in ár

Eft­ir að hafa afplánað dóm­inn í stóra fíkni­efna­mál­inu flutti Sverr­ir Þór af landi brott og er sagður hafa haldið sig bæði á Spáni og í Bras­il­íu þar sem hann var lengi bú­sett­ur. Einnig hef­ur spurst til hans í Amster­dam í Hollandi. Þrátt fyr­ir það hef­ur hann verið tengd­ur við glæp­a­starf­semi á Íslandi und­an­far­in ár. Íslensk lög­reglu­yf­ir­völd hafa lengi grunað Sverri Þór um að standa að baki smygli til Íslands.

Til dæm­is kom fram í dóms­máli árið 2010, sem snér­ist um fíkni­efnainn­flutn­ing til Íslands, að Sverr­ir Þór hefði lík­lega af­hent burðardýr­um kókaín í Alican­te á Spáni og þegið greiðslu fyr­ir. Hann var þó hvorki ákærður né kallaður til sem vitni í því máli.


Íslend­ing­ur hand­tek­inn í Bras­il­íu

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert