Rúða brotnaði og grjót hrundi úr fjallinu

Frá Siglufirði.
Frá Siglufirði. mbl.is/Helgi Bjarnason

Rúða brotnaði og myndir og styttur féllu í gólfið og eyðilögðust á heimili Rósu Jónsdóttur og Jósteins Snorrasonar á Siglufirði í nótt. Hjónin eru ekki enn sofnuð enda skelfur jörð ennþá. Rósa og Jósteinn búa við Suðurgötu sem er í hlíðinni fyrir ofan bæinn, neðan við snjóflóðavarnargarða. Rósa segir að grjót hafi hrunið úr hlíðinni í skjálftunum og vonar að garðarnir komi í veg fyrir að það lendi á íbúðarhúsunum. „Manni stendur ekki alveg á sama ef það fer nú að koma mikið grjóthrun,“ segir Rósa.

„Við vorum vakandi þegar stóri skjálftinn kom í nótt - raunar höfum við ekkert farið að sofa,“ segir hún. „Nú er bara drukkið kaffi og fylgst með gangi mála.“ Fimm eru á heimilinu og nú er ungt barnabarn í heimsókn. „En litli drengurinn svaf eins og steinn í nótt,“ segir Rósa um barnabarnið. „En það eru enn að koma skjálftar svo maður er nú hálfsmeykur þó að við höldum alveg ró okkar.“

Rósa segir að öflugur skjálfti hafi orðið rétt eftir miðnættið og allt húsið titrað og nötrað. Sá mældist 4,8 stig „Við vorum róleg í upphafi hrinunnar en svo kom þessi stóri.“ Við hann losnaði m.a.  einangrun í háalofti hússins.

„Það lék allt á reiðiskjálfi“

Annar enn stærri skjálfti, 5,2 að stærð, varð svo kl. 1.25 í nótt. Rúða brotnaði þá í barnaherbergi í húsinu en enginn var þar inni er það gerðist. Innra glerið sprakk en ekki þurfti að byrgja gluggann. „Fyrst kom ofsalegt högg á húsið, rétt eins og flutningabíll hefði keyrt á það. Svo hristist allt og skalf að okkur fannst í nokkuð langan tíma.“

Rósa segir að myndir og aðrir hlutir hafi dottið af veggjum og brotnað. Þá hafi einnig ýmislegt dottið úr hillum og skemmst eða eyðilagst. „Það lék hér allt á reiðiskjálfi. Það er bara þannig.“

Rósa hefur búið á Siglufirði í sextán ár. Hún man eftir einum stórum skjálfta fyrir nokkrum árum en segist aldrei hafa upplifað langa hrinu sem þessa. Hún segir að einhverjir íbúar í bænum hafi tekið sig saman og hist í nótt. Hún segist þó hafa haldið kyrru fyrir á heimili sínu. Fjölskylda hennar búi m.a. á Akureyri. „En ég vildi ekkert keyra af stað í nótt, hvað um göngin? Ég er nú ekki spennt fyrir því að vera inni í jarðgöngum í svona miklum skjálftum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert