Líkaminn gleymir ekki ofbeldi í æsku

Kynferðisofbeldi í æsku er áfall sem getur leitt til áfallastreituröskunar …
Kynferðisofbeldi í æsku er áfall sem getur leitt til áfallastreituröskunar og vanlíðunar sem bælir ónæmiskerfið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kynferðislegt ofbeldi í bernsku og áfallið af völdum þess veldur börnum mikilli streitu sem getur bælt ónæmiskerfið og brotið niður almennt heilsufar fram á fullorðinsár og gert einstaklinginn berskjaldaðan fyrir endurteknum áföllum síðar á lífsleiðinni. Í heilbrigðiskerfið vantar hins vegar oft að tenging sé gerð milli áfalla og líkamlegra sjúkdóma.

Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem Sigrún Sigurðardóttir, lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri, kynnti í dag. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna heilsufar konu sem varð fyrir ítrekuðu kynferðislegu ofbeldi í æsku og hefur átt við flókin heilsufarsvandamál að stríða. Um svo kallaða tilfellarannsókn var að ræða, þar sem flókið tilfelli er krufið til mergjar.

Þegar Sigrún kynnti niðurstöðurnar á málstofu í Háskólanum á Akureyri í dag áréttaði hún að ekki væri reynt að alhæfa heldur sé markmiðið að dýpka skilninginn út frá skoðun á einum einstaklingi og ná fram upplýsingum sem erfitt geti verið fá með megindlegum rannsóknum. Rannsóknina nefnir hún „Þegar líkaminn tjáir það sem við komum ekki í orð.“

Kynferðisofbeldi frá tveggja ára aldri

Rannsóknir hafa áður sýnt að kynferðislegt ofbeldi í bernsku getur haft víðtækar afleiðingar fyrir heilsufar og líðan. Sigrún hefur unnið talsvert með þolendum kynferðisofbeldis og m.a. stýrt tilraunaverkefninu Gæfusporinu þar sem þátttakendur voru konur sem áttu það allar sameiginlegt að hafa verið beittar kynferðisofbeldi í æsku og glímt við margvísleg heilsufarsleg vandamál allar götur síðan.

„Þegar ég sá hversu líkamleg áhrif voru algeng og hversu sterkt þau komu fram vaknaði áhugi á að vinna meira með það,“ sagði Sigrún þegar hún kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar í dag. Konan, sem um ræðir og kölluð er Rut í rannsókninni, var beitt kynferðisofbeldi af föður sínum frá tveggja til níu ára aldurs. Í kjölfarið var hún einnig beitt ofbeldi af föður vinkonu sinnar í bernsku og á unglingsárum af stjúpföður sínum og frænda. 

Sigrún segir það enga tilviljun að sumir verði fyrir síendurteknum áföllum sem þessum eftir að hafa orðið fyrir því í æsku að mörkin séu brotin. „Þeir sem verða fyrir svona miklu áfalli að búið er að brjóta mörkin þeirra verða varnarlausir. Ef þeir fá ekki hjálp til að setja mörkin aftur og stjórna hverjum þeir hleypa að sér, þá eiga allir greiðan aðgang að þeim.“

Fór út úr líkamanum og lokaði á minningarnar

Strax í æsku glímdi Rut við kvíða og félagsfælni sem á unglingsárum þróaðist yfir í ofsakvíða og þunglyndi. Á fullorðinsárum hefur hún glímt við erfiðleika í nánum samböndum, átt erfitt með að treysta auk þess sem hún fann fyrir fæðingarþunglyndi og tengsl hennar við börnin voru erfið.

„Það sem gerist oft er að fólk lokar á tilfinningar sínar og reynslu og það er það sem hún gerði, hún lokaði algjörlega á þetta og fer fyrst um 15 ára aldur að muna og fær þá „flashback“ sem hún ræður ekkert við,“ sagði Sigrún. Rut hafi einnig brugðist við sem barn með s.k. hugrofi. „Hún fór út úr líkamanum sem hún segir að hafi bjargað sér frá þessari erfiðu reynslu, að vera ekki til staðar.“

Stöðugir líkamlegir kvillar alla ævi

Auk hinnar andlegu vanlíðunar byrjuðu líkamlegir kvillar einnig að koma fram strax í æsku. Rut fékk alltaf hita og varð veik þegar hún var send heim til föður síns. Hún var alltaf þreytt, fór að missa sjón og heyrn á unglingsárum og fann fyrir miklum en óútskýrðum verkjum. Á fullorðinsárum voru verkirnir orðnir langvinnir, hún þjáðist af vefjagigt, meltingarfæravandamálum, svefnvandamálum og fékk æxli í kalkkirtil.

Sigrún segir það koma sterkt fram hjá konum með svipaða reynslu af kynferðisofbeldi í æsku að þær fái ítrekað kynsjúkdóma. Rut þjáðist af bólgum í eggjaleiðurum, blöðrum á eggjastokkum og langvinnum verkjum í móðurlífi allt frá unglingsárum. Frumubreytingar urðu í leghálsi hjá henni, hún fékk utanlegsfóstur og illkynja æxli í eggjastokk. 

Börn geta ekki flúið aðstæðurnar

Sigrún bendir á að þegar fólk verði fyrir áfalli verði spenna í líkamanum, heilinn geti brugðist við með því að senda röng skilaboð og allt kerfið komist í uppnám. Fyrstu viðbrögð séu yfirleitt annaðhvort að berjast eða flýja, en börn sem verði fyrir kynferðislegu ofbeldi á eigin heimili geti hvorugt gert. 

„Þau flýja ekki neitt, þau bara frjósa. Barn getur ekkert gert til að komast út úr þessu umhverfi. Við þekkjum það sjálf að ef við erum undir álagi hefur það áhrif á líkamsstarfsemina og ef það er síendurtekið inni á heimili, þar sem barnið er alltaf í ótta og kvíða, þá er þetta ekki áfall sem líður hjá heldur viðvarandi sem byggist upp, líkaminn er í stanslausri spennu og þar með koma verkir.“

Í tilfelli Rutar var streituvaldurinn stöðugt til staðar. „Þetta var pabbi hennar. Hún var aldrei örugg, alltaf hrædd, hætti að geta sofið, fór að finna fyrir ótta, hræðslu og óöryggi og í kjölfarið kvíða, þunglyndi og mikilli streitu. Því fylgir bæling á ónæmiskerfinu.“

Gat í heilbrigðiskerfinu

Sigrún sagði málið í raun sáraeinfalt. Kynferðislegt ofbeldi í æsku sé sálrænt áfall, sem valdi áfallastreitu. Líkt og fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á veiki streita ónæmiskerfið. Því þurfi ekki að koma á óvart að kynferðisofbeldi í æsku geti haft alvarleg áhrif á heilsufar. 

Engu að síður sagði Sigrún að í heilbrigðiskerfinu hafi þetta tvennt, áföll og sjúkdómar, ekki verið tengt saman. Þar sé gat sem þurfi að stoppa í. Í umræðum á málstofunni kom m.a. fram að heilbrigðisfólk sjái oft dæmi þess að konur með sögu kynferðisofbeldis vilji ekki láta snerta sig eða skoða, t.d. á meðgöngu hjá ljósmóður eða í krabbameinsskoðun, sem geti valdið þeim mikilli vanlíðan.

Sigrún segir mikilvægt að auka þekkingu fagfólks á einkennum og líðan einstaklings til að hægt sé að bregðast við með skilningi, stuðningi og viðeigandi úrræðum. Rut hafi sem dæmi aldrei í heilbrigðiskerfinu verið spurð um áfalla- eða ofbeldissögu. Sagði Sigrún það eitt að geta t.d. merkt „X“ á blaði við slíkri spurningu geta opnað á að konur segi frá. Ef meðferðaraðilar þekki söguna sé hægt að bregðast við með öðruvísi áherslum í viðmóti og meðferð.

Einhver annar sem á að skammast sín

Í erindinu vitnaði Sigrún til orða Rutar sjálfrar um að það eitt að geta sagt frá og verið trúað væri stórt skref. „Það sem var svo magnað var að finna það að fólk trúði mér. Það sem felst í að segja frá er að geta tjáð sig, að manni sé trúað, að tekið sé mark á manni, það einhvern veginn heilar mann,“ sagði Rut.

„Þetta er ekki spurning um vorkunn eða viðbrögð, bara að manni sé trúað, að fá samþykki fyrir að maður er ekki ábyrgur. Þegar þú segir ekki frá ertu að taka ábyrgðina á þig, "þetta var mér að kenna og ég ætla að þegja." Þegar þú segir frá er þetta ekki þér að kenna, þá er einhver annar sem á að skammast sín.“

Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og lektor við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á málstofu í Háskólanum á Akureyri …
Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á málstofu í Háskólanum á Akureyri í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka