Fjöldi tilkynninga borist Sjóvá

Tjörublæðingar hafa valdið ökumönnum miklum ama og jafnvel tjóni á …
Tjörublæðingar hafa valdið ökumönnum miklum ama og jafnvel tjóni á ökutækjum.

Vegagerðin er með ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá og þangað hefur fjöldi fyrirspurna og tilkynninga borist um tjón á ökutækjum vegna tjörublæðinga á norðurleiðinni. Guðmundur Magnússon hjá Sjóvá segir óljóst með bótaskylduna, hvert mál verði skoðað fyrir sig. Guðmundur á von á fleiri tilkynningum og vonandi skýrist málin er líða tekur á vikuna.

Guðmundur segir að finna þurfi út úr því hvað veldur þessum blæðingum, áður en ákvörðun verður tekin um bótaskyldu eða afgreiðslu þessara mála. Hvetur hann ökumenn sem lent hafa í tjóni að tilkynna það til næsta útibús Sjóvár, þannig að hægt sé að skrá málin niður.

„Það þarf að fá öll gögn upp á borðið áður en ljóst er hvar sökin liggur. Þetta er mjög sérstakt mál og hefur komið upp á stórum vegarkafla. Þetta er vissulega bagalegt fyrir þá sem lenda í þessu og nauðsynlegt að skoða málið frá öllum hliðum,“ segir Guðmundur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert