Blæðingar og kögglar á hringveginum

Bílar hafa skemmst vegna tjörublæðingar
Bílar hafa skemmst vegna tjörublæðingar mbl.is/Skapti

Vegfarendur á Norður- og Vesturlandi eru varaðir við mögulegum slitlagsblæðingum og að slitlagskögglar sem brotna af bílum geta verið varasamir. Mikilvægt að draga úr hraða þegar bílar mætast, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Það eru hálkublettir í kringum Vík í Mýrdal og á Mosfellsheiði. Hálka er í Grafningi og á Kjósarskarðsvegi. Á  Vesturlandi eru hálkublettir á Fróðárheiði en annars staðar er autt.

Á Vestfjörðum er hálka á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði en hálkublettir á Hálfdáni, Mikladal og Kleifaheiði. Einnig eru hálkublettir á kafla í Ísafjarðardjúpi og á Innstrandavegi. Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp.

Hálkublettir eru víða á vestanverðu Norðurlandi, einkum á útvegum, en hringvegurinn er auður austur að Eyjafirði, þó eru hálkublettir á Öxnadalsheiði. Í Þingeyjarsýslum er víða nokkur hálka. Hálka og éljagangur er á Hófaskarði og með ströndinni að Vopnafirði.

Það er hálka allvíða á Austurlandi, einkum á fjallvegum og til landsins. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Fjarðarheiði.

Snjóþekja og snjókoma er á Fagradal og Oddsskarði. Snjóþekja og éljagangur eða snjókoma er með ströndinni frá Reyðarfirði að Öræfum. Á Suðausturlandi er víða hálka eða hálkublettir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert