Engin neyðarmóttaka fyrir börn

Saksóknari segir að útvíkka og efla þurfi starf neyðarmóttöku vegna …
Saksóknari segir að útvíkka og efla þurfi starf neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis þannig að þar verði m.a. barnalæknir á sólarhringsvakt. mbl.is/Kristinn

Áður en neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis var opnuð á Landspítala vissu lögreglumenn oft ekki hvert þeir ættu að fara með konur sem orðið höfðu fyrir nauðgun. Í dag er staðan enn oft þannig þegar kemur að kynferðisofbeldi gegn börnum. Útvíkka og efla þarf starf neyðarmóttöku að mati saksóknara.

20 ár eru í dag liðin síðan neyðarmóttakan var stofnuð og mikil þróun hefur átt sér stað á þeim tíma. Á málþingi í tilefni afmælisins sem fram fór á Hótel Sögu í dag sagði Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari að neyðarmóttakan hefðii byrjað fyrir 20 árum sem tilraunastarfsemi, en væri nú orðin samfélagsstoð.

Skiptir sköpum við sönnunarfærslu

„Þegar litið er um öxl er það mat okkar ákærenda að mjög mikið hafi unnist með tilkomu neyðarmóttökunnar. Mín skoðun er sú að það beri að styrkja starfsemi neyðarmóttöku enn frekar,“ sagði Hulda Elsa. 

Auk sálræns stuðnings við þolendur fer mikil nákvæmnisvinna fram á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. Hulda Elsa benti á að lífsýnataka sem þar fer fram geti t.d. skipt höfuðmáli við sönnunarfærslu mála og þá skipti máli að vandlega sé skráð niður hvenær og hvernig fyrstu viðtöl og rannsóknir fóru fram.

Eitt af því sem litið er til hjá embætti ríkissaksóknara, þegar ákvörðun um er tekin um hvort ákært verði eða mál látið niður falla, er hvort samræmi sé í skýrslu lögreglu og skýrslu læknis á neyðarmóttöku, sem er oft sú fyrsta sem tekin er af þolendum. Þá er einnig horft til lýsinga á ástandi brotaþola við læknisskoðun á neyðarmóttöku, bæði andlegri líðan og líkamlegum áverkum. Þetta sagði Hulda Elsa sýna mikilvægi þess starfs sem fram fer á neyðarmóttöku.

Hærra hlutfall ákæra og fleiri sakfellingar

Tölur gefa mjög sterklega til kynna að ákæruhlutfall hafi aukist nokkuð á undanförnum 10 árum. Það má að sögn Huldu Elsu rekja til aukinna gæða í rannsóknum á kynferðisbrotum.

Lagabreytingin sem gerð var árið 2007 með útvíkkun á nauðgunarhugtakinu var einnig mjög til bóta að sögn Huldu Elsu og hefur skilað sér í fleiri sakfellingum. Hulda Elsa benti raunar á að engin kafli í almennum hegningarlögum hefði gengið í gegnum jafnviðamiklar breytingar og sá er lýtur að kynferðisbrotum.

Um 45% af þeim kynferðisbrotamálum sem berast ríkissaksóknara leiða til ákæru, sé tekið mið af meðaltali áranna 2005-2010. Á sama tímabili hafa um 35% þeirra mála sem rata til ríkissaksóknara endað með sakfellingu, á landsvísu.

Staða saksóknara áhyggjuefni

Í því ljósi vakti Hulda Elsa máls á bágri stöðu ríkissaksóknaraembættisins. Miðað er við að kynferðisbrot taki ekki lengri tíma en 60 daga í rannsókn og eftir það verði ákveðið innan 30 daga hvort ákært verði. Langt er síðan hægt var að fylgja þeirri reglu, vegna manneklu.

„Þessi staða er mikið áhyggjuefni og sárt að sjá málum svo fyrirkomið þegar þróunin hefur að öðru leyti verið jákvæð,“ sagði Hulda Elsa. Sagði hún drátt á málum geta leitt til þess að sönnunarfærsla verði erfiðari og sakfelling ólíklegri.

Engin neyðarmóttaka fyrir börn

Annað sem betur má fara í kerfinu er viðbrögð við kynferðisbrotum gagnvart börnum. Stefnan er sú að fara með öll börn í Barnahús til rannsóknarviðtals ef grunur leikur á um brot gegn þeim. Barnahús, sem var stofnað fyrir 15 árum, hefur  gefist afar vel og það starf sem þar er unnið margrómað innanlands og utan.

Í tilfellum þar sem þörf er á akút læknisskoðun vegna kynferðisofbeldis flækist hins vegar málið. Starfsfólk neyðarmóttöku telur sig almennt ekki í stakk búið til að taka á móti börnum yngri en 12 ára. Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild lögreglu, sagði að yfirleitt væri farið með börn upp á Barnaspítala Hringsins eftir kynferðisbrot en þar er þó ekki sérstök neyðarmóttaka.

Hulda Elsa sagðist þeirrar skoðunar að útvíkka þyrfti starfsemi neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota þannig að allan sólarhringinn væri barnalæknir til staðar á bakvakt sem hægt væri að kalla til vegna akút skoðunar. 

Áður en neyðarmóttakan var stofnuð fyrir 20 árum vissu lögreglumenn oft ekki hvert þeir ættu að fara með konur sem höfðu orðið fyrir kynferðisofbeldi. Hulda Elsa sagði sömu stöðu í raun vera uppi í dag þegar kæmi að börnum.

Úrræði fyrir gerendur

Kristján Ingi sagðist auk þess sakna þess að sjá úrræði fyrir gerendur. Hann sagði kynferðisbrot vera hvort tveggja, afbrot og samfélagslegt vandamál. Kynferðisbrotamenn væru ekki allir illviljaðir en eitthvað í samfélagsgerðinni fengi þá til að ganga of langt og fara yfir strikið.

Piltar sem hafa verið dæmdir eða sem grunaðir eru um að hafa framið kynferðisbrot fái lítið færi til betrunar. „Það þarf að hjálpa þeim líka. Við bætum ekki ástandið nema að huga bæði að þolanda og geranda.“

Eyrún Jónsdóttir er verkefnastjóri á neyðarmótttöku vegna kynferðisofbeldis.
Eyrún Jónsdóttir er verkefnastjóri á neyðarmótttöku vegna kynferðisofbeldis. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka