„Auðvitað var þetta sjokk“

Guðni Páll Viktorsson kajakræðari.
Guðni Páll Viktorsson kajakræðari. mynd/Einar Björn Einarsson

„Auðvitað var þetta sjokk. Ég er ekkert smeykur að segja það. Þjálfunin skilaði sér vel, þegar ég var búinn að velta honum, velti ég honum upp aftur og mat stöðuna eftir það,“ sagði Guðni Páll Viktorsson kajakræðari sem lenti í vandræðum í dag þegar hann fékk á sig brotsjó. Hann þá staddur utan við Meðallandssand.

„Suðurströndin er mjög erfið. Ég átti alveg von á þessu á þessu svæði,“ segir Guðni Páll. Hann er þakklátur fyrir skjót viðbrögð björgunarsveitanna og Landhelgisgæslunnar og segir þetta enn og aftur sýna hversu öflugar þær eru. 

„Það var í raun og veru var þetta minn mannskapur sem áttar sig á því að það er ekki allt með felldu. Merkið frá staðsetningabúnaðinum hætti að senda frá sér þegar það féll útbyrðis,“ segir Guðni Páll. 

GSM-símasamband og talstöðvarsamband er lélegt á svæðinu en Guðni Páll hringdi í Gísla Friðgeirsson sem fylgist grannt með ferðum hans. 

„Það eina sem hann heyrir frá mér er að ég hafi fengið á mig brotsjó og báturinn sé laskaður og staðsetningartækið sé farið í sjóinn, svo slitnar sambandið. Eðlilega bregður honum. Hann bregst rétt  við og tilkynnir Gæslunni og af stað fer ákveðið ferli,“ segir Guðni Páll sem var rétt í þessu að ljúka ferlinu því björgunarsveitin var nýfarin frá honum að athuga líðan hans.

Samdi jafntefli við náttúruna í dag

Guðni Páll var kominn í Alviðruhamarsvita. Það er, að hans sögn, ágætis skýli fyrir skipsbrotsmenn. „Ég er löglegur hér í kvöld en ég er kominn með félagsskap Gísli er mættur og við erum búnir að gera við það sem þarf að gera við. Á morgun er stefnan tekin á Vík,“ segir hann.    

Spurður hvort bakslag hafi látið á sér kræla eftir brotsjóinn segir hann: „Það er ekki til í dæminu, nú verð ég bara öflugri. Það var einhver frægur maður sem sagði það sem drepur þig ekki herðir þig. Maður verður að bera virðingu fyrir náttúrunni og öflunum sem þarf búa í þessum heimi. Það er bara það sem gerðist í dag, með fullri virðingu fyrir manninum þá er náttúran miklu sterkari en við en í dag þá sömdum við um jafntefli,“ segir Guðni Páll.

Lífróður Samhjálpar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka