Eins og vopn úr vísindaskáldsögu

„Það þyrfti ekkert að spyrja að leikslokum ef þessu vopni yrði beitt gegn nokkrum manni,“ segir Karl Steinar Valsson um hnúajárnið á myndinni, sem líkist einna helst vopni úr vísindaskáldsögu. Vopnið er hins vegar ekkert til að gera grín að, því það er flugbeitt og oddhvasst. „Það myndi enginn nokkurn tíma fá leyfi fyrir svona vopni, þetta uppfyllir engin skilyrði vopnalaga til að vera í neinni vörslu.“

Vopnið var til sýnis hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag, en það var meðal þeirra vopna sem fundist við húsleit í Hafnarfirði í kjölfar innbrots og ráns við Barðastaði í Grafarvogi, þar sem átta skotvopn voru tekin ófrjálsri hendi. Karl sagði mennina tengjast Outlaws-vélhjólagenginu og að vopnin sem stolið var, auk annarra vopna, hefðu fundist við húsleit í félagsheimili gengisins.

„Við erum ennþá með fjóra karlmenn í gæsluvarðhaldi, sem verða þar fram á mánudag. Yfirheyrslur standa yfir og það mun koma í ljós í dag og á morgun hver framvindan verður á því. Fleiri hafa hins vegar verið yfirheyrðir,“ segir Karl. „Við erum að reyna að fá heildarmynd af atburðarásinni og klára málið á þeim tíma,“ bætti Karl við, og sagði að lögreglan hefði farið í þrjár húsleitir í tengslum við málið en gat ekkert gefið upp um hvort fleiri húsleitir yrðu framkvæmdar.

Meira um vopnaþjófnað undanfarin ár

Karl Steinar sagði það hafa færst í vöxt undanfarin tvö ár að glæpagengi reyndu að komast yfir vopn. „Sumir einstaklinganna sem tengjast ráninu á vopnunum tengjast Outlaws en alls ekki allir. Alvarlegi þátturinn í þessu er að við sjáum mikla breytingu á vopnaburði og tilburðum til að stela vopnum. Það er í takt við það sem við sögðum við stjórnvöld í janúar 2011 þegar þessi erlendu gengi koma hérna inn.“

Hann segir stjórnvöld hafa brugðist skjótt við þeim viðvörunum og telur að það að finna vopnin á nokkrum klukkustundum sýni að lögregluyfirvöld eru skjót til aðgerða. „Það tókst í þessu tilviki, en ég er ekki að segja að það muni gerast alltaf,“ segir Karl Steinar. 

Hann sagði mjög algengt að menn söguðu framan af haglabyssum sem þeir stela, því haglabyssa í fullri stærð er klunnaleg og illmeðfærileg. „Ef við hefðum fundið vopnin viku síðar þá hefði líklegast verið búið að saga framan af öllum haglabyssunum.“

Karl Steinar sagði lögregluna ekki hafa fundið skammbyssur í neinum mæli, þrátt fyrir sögusagnir um tilvist þeirra í undirheimum. Hann segir jafnframt að ekki séu bein tengsl milli árásarinnar í Ystaseli og ránsins á vopnunum.

Alvarlagar afleiðingar kæmust vopnin í umferð

„Við sjáum mjög alvarlega þróun. Þó svo að skotvopnum hafi ekki verið beitt við þetta rán þá sáum við notkun þeirra í Bryggjuhverfinu á sínum tíma þar sem skotvopnum var beint að fólki og hefði getað farið illa. Það er komin upp mjög alvarlega staða og megum búast við að vopnum verði beitt gegn fólki, þá er bara spurningin um við hvaða aðstæður það væri,“ segir Karl Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert