Viðræður við læknakandídata

Landspítalinn.
Landspítalinn. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Vilhelmína Haraldsdóttir framkvæmdastjóri lyflækningasviðs hjá Landspítalanum hefur skilning á umkvörtunum læknakandídata hvað varðar mikið vinnuálag. Hún segir hins vegar að yfirlýsing kandídatanna á þessum tímapunkti komi á óvart þar sem viðræður við þá standi yfir.

Vilhelmína segist hafa verið nokkuð undrandi vegna yfirlýsinga læknakandídata á þessum tímapunkti. „Við höfum verið í viðræðum við kandídatanna. Undir lok maí komu sex fulltrúar og ræddu við okkur um þessi mál. Við urðum sammála um nokkra hluti sem hægt væri að ræða um og við voru búin að finna fundartíma til þess að ræða málin áfram,“ segir Vilhelmína.

Munu virða hvíldartíma

Hún segir að á fundinum hafi komið fram að Landspítalinn muni virða hvíldartíma læknakandídata en hann er einn af þeim þáttum sem kandídatar hafa kvartað undan. „Það er hins vegar alltaf álitamál hvenær vinnutímanum lýkur því verkefnin eru endalaus. Stundum biður yfirmaður lækna um að vera áfram þar sem sjúklingur er t.a.m. í hættu og þá fá þau það greitt, en ekki ef þau vinna áfram að eigin hvötum,“ segir Vilhelmína.

Hún segir að vissulega séu kandídatar undir álagi en það sé líkt og aðrar starfsstéttir. Þá tekur hún undir með þeim um að vinnuaðstaðan mætti víða vera betri og unnið sé að úrbótum, sem þó gangi hægt.

„Síðan var heilmikið rætt um launin og það er nokkuð til í því hjá þeim að launin hafa ekki haldið í við verðlagið. En við getum ekki hækkað grunnlaunin nema að til komi nýir kjarasamningar og þeir eru ekki lausir fyrr en í febrúar á næsta ári. Hins vegar lofuðum við því að skoða betur hvort að þau fengu ekki greitt fyrir sinn vinnutíma á réttlátan hátt [……] það stóð síðan til að nokkrir yfirlæknar myndu hitta þau á næstu viku og skoða þessi mál. Þannig stóðu málin þegar þessi yfirlýsing kom,“ segir Vilhelmína.

Hagsmunir beggja aðila

Meðal umkvörtunarefna kandídata er lítil kennsla frá læknum spítalans. Vilhelmína segir að þar hafi nemendur nokkuð til síns máls. „Þegar mikið er að gera á spítalanum þá kemur það ábyggilega niður á þessum þætti. Þá er minni tími til þess að segja þeim til. En ég held að það sé alveg rétt hjá þeim að þegar álagið er mikið þá líður kennslan fyrir,“ segir Vilhelmína. 

Fram hefur komið að læknakandídatar horfi nú til annarra spítala, hérlendis sem og erlendis til þess að taka kandídatsár sitt. Vilhelmína telur að slíkt myndi koma niður á spítalanum en telur engu að síður að hagsmunum beggja aðila sé best borgið ef kandídatar takið að sér starf á spítalanum. „Ef þeir skila sér ekki inn á spítalann þá er það slæmt fyrir hann. En það er líka slæmt fyrir þau, því þau fá ekki lækningaleyfi nema að þau ljúki sínu kandídatsári á þar til bærum spítala.“ segir Vilhelmína.

Hún á von á því að viðræður við læknakandídata haldi áfram.  

Sjá einnig: Upplifa sig sem vinnudýr

Vilhelmína Haraldsdóttir.
Vilhelmína Haraldsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert