SUS hvetur ráðherra til að biðjast afsökunar

Ungir sjálfstæðismenn skora á tvo ráðherra Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttur og Sigurð Inga Jóhannsson, að biðjast afsökunar á að hafa tekið þátt í samþykkt ákærunnar á hendur Geir H. Haarde. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem SUS hefur sent á fjölmiðla.

„Ungir sjálfstæðismenn sendu frá sér ályktun 3. apríl 2012 þar sem þeir sögðust telja framgöngu þeirra þingmanna sem stóðu að ákærunni á hendur Geir H. Haarde svo alvarlega atlögu að mannréttindum og réttarríkinu að Sjálfstæðisflokkurinn ætti ekki að taka þátt í ríkisstjórn með þeim þingmönnum. Síðan þá hefur Landsdómur sýknað Geir af öllum hinum veigamestu ákæruliðum og laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsins hefur lýst þeirri skoðun sinni að gengið hafi verið of langt með ákærunni á hendur Geir og hún hafi verið af pólitískum toga.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokki en tveir ráðherrar þess flokks greiddu atkvæði með ákærunni, þau Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og umhverfisráðherra.

Ungir sjálfstæðismenn skora á Eygló og Sigurð Inga að biðjast afsökunar á að hafa tekið þátt í samþykkt ákærunnar á hendur Geir H. Haarde,“ segir í fréttatilkynningu SUS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert