Ólafur Baldursson, læknir og framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, segir að áætlunin sem lyflækningadeild spítalans starfar nú samkvæmt muni vera í gildi um nokkurra vikna skeið. Sjúklingar eigi ekki að finna fyrir skertri þjónustu. Stöðuna segir hann vissulega snúna, enda séu lyflækningar afar mikilvæg grein. Deildarlæknar á lyflækningasviði eru um 5% allra lækna á spítalanum.
„Það sem máli skiptir í þessu er að báðir aðilar þurfa að taka sig á því sjaldan veldur einn þá tveir deila. Aðalatriði málsins, sem ég reifaði í grein í laugardagsblaði Morgunblaðsins, er auðvitað öryggi sjúklinganna.“
Öryggi sjúklinga segir Ólafur samanstanda af mörgum þáttum og ekki hægt að benda á einhvern einn þátt öðrum fremur í þeim efnum. „Við leitum allra leiða til að tryggja það. Okkur er gert það erfitt fyrir úr ýmsum áttum. Það er enginn einn þáttur sem bjargar öryggi sjúklinga, en þeir verða allir að vera til staðar. Þessir þættir eru til dæmis mannafli, húsnæði, tækjakostur, þjálfun starfsfólks.“
Þar segir Ólafur þjálfun og menntun ungra lækna koma við sögu. „Við höfum mikinn áhuga á að standa vel að því, en þar hafa verið ákveðnir árekstrar undanfarin ár eins og rakið var í frétt mbl.is. Það er auðvitað einn þáttur í öryggi sjúklinga.“
Ólafur ítrekar að vandinn sé margþættur, eins og hann rekur í grein sinni. „Við tökum þennan nýjasta vanda alvarlega og berum mikla virðingu fyrir öllum okkar læknum og erum öll af vilja gerð til að leysa þetta mál Áherslan næstu daga verður auðvitað á öryggi sjúklinga út af þessari deilu.
Ég á ekki von á að þetta hafi áhrif á öryggi sjúklinga. Næstu dagar munu leiða það í ljós hvernig gengur að innleiða þessa áætlun og munum kappkosta að sjúklingar verði ekki fyrir truflunum út af þessu. Næstu dagar verða samt ákveðinn prófsteinn á þetta.“
Hann segir áætlunina munu vera í gangi í einhverjar vikur að minnsta kosti. „Eftir því sem tíminn líður þarf tvennt að koma til, það þarf að breyta vissum atriðum í skipulagningu spítalans til lengri tíma, og það þarf meira fé inn í rekstur spítalans. Meira fjármagn til að bæta skipulagið á spítalanum leiðir til hagræðingar fram í tímann. Það er það sem er svo erfitt að þurfa alltaf að útskýra,“ segir Ólafur, en hann telur ekki rétt að útlista þær skipulagsbreytingar sem hann talar um í smáatriðum á þessu stigi.
Eins og mbl.is greindi frá í gær lýsti Læknaráð Landspítala í byrjun sumars yfir þungum áhyggjum yfir bágri mönnum almennra lækna á lyflækningasviði. Nú hefur verið brugðist við með nokkurs konar neyðaráætlun þar sem skipulagið á lyflækningasviðinu er stokkað upp til að mæta manneklunni.