Reyndu rán með rörasprengju

Laugavegur.
Laugavegur. Rósa Braga

Þrír karlmenn komu fyrir dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun vegna ákæru á hendur þeim vegna tilraunar til þjófnaðar og ráns þriðjudaginn 20. mars 2012. Mönnunum er gefið að sök að hafa reynt að brjótast inn í skartgripaverslun við Laugaveg og í kjölfarið fremja vopnað rán í matvöruverslun.

„Ég og [...] vorum seint að kvöldi að drekka og eftir smá-tíma kláruðum við allt og það var ekki annað að gera en að redda meira. Við áttum engan pening en hann kom með þá uppástungu að fara í verslun sem hann vissi um á Laugavegi.“ Þannig lýsti ungur karlmaður aðdraganda þess að hann og félagi hans fóru að skartgripaversluninni við Laugaveg. Þeir hringdu í þriðja manninn sem samþykkti að keyra þá á staðinn.

Ökumaðurinn sagðist ekkert hafa vitað af áformunum en hann lagði bifreiðinni við Amtmannsstíg og beið í bílnum á meðan hinir fóru upp á Laugaveg. „Þeir hlaupa út og segjast vera komnir eftir smástund. Stuttu síðar heyrist svakaleg sprenging og í kjölfarið komu þeir aftur inn í bílinn.“

Mennirnir notuðu rörasprengju til að til að brjóta rúðu skartgripaverslunarinnar. Eitthvað fór þó ekki eins og áætlað var og sneru þeir til baka tómhentir. Spurður um það hvað rætt hafi verið eftir mennirnir voru komnir aftur upp í bíl sagði ökumaðurinn: „Þeir ræddu aðallega um hvað það þetta var hár hvellur.“

Frömdu rán með blóðugri sprautunál

Annar aðalmannanna lýsti því svo að þetta hefði ekki verið fyrsti viðkomustaðurinn þetta kvöld. Þeir hafi fyrst farið í Miðhraun í Garðabæ og ætlað að brjótast inn í verslun 66° norður. Frá því hafi hins vegar verið horfið.

Þar sem ekkert fékkst úr skartgripaversluninni leituðu mennirnir á önnur mið. Ákváðu þeir að ræna verslun 10-11 í Grímsbæ. Þar ógnuðu þeir starfsmanni verslunarinnar með blóðugri sprautunál og hnúajárni. Enn beið bílstjórinn í bílnum. „Svo koma þeir til baka og með peningaskúffu undir hendinni. Ég varð þá mjög smeykur, keyrði þá þangað sem þeir vildu og brunaði sjálfur heim,“ sagði hann um atvikið.

Fjallað var um fleiri ákærur á hendur tveimur mannanna við aðalmeðferðina í dag. Annar þeirra er meðal annars einnig ákærður fyrir handrukkun en hinn fyrir að ráðast á unnustu sína og fyrir umferðarlagabrot. Nánar verður greint frá málinu á mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert