Heyrðu af rannsókn um helgina

Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans. mbl.is

Lögmenn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Lárusar Welding og sjö fyrrverandi stjórnarmanna Glitnis banka heyrðu af því um liðna helgi að sérstakur saksóknari rannsaki 15 milljarða víkjandi lán sem Glitnir veitti Baugi í árslok 2007. Slitastjórnin sendi tilkynningu til sérstaks saksóknara um málið í apríl.

Fyrirtaka fór fram Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í skaðabótamáli sem slitastjórn Glitnir höfðaði gegn Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrverandi forstjóra Baugs og fyrrverandi stjórn Glitnis, en í henni sátu Þorsteinn M. Jónsson, eigandi Vífilfells, Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fyrrverandi stjórnarformaður FL Group, Pétur Guðmundarson, lögmaður hjá Logos, Björn Ingi Sveinsson, forstjóri Saxbygg, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis.

Slitastjórn Glitnis telur að ákvarðanatöku við 15 milljarða lánveitingu til Baugs hafi verið ábótavant og að tjón Glitnis af lánveitingunni sé um 6,5 milljarðar króna. Baugur nýtti lánið til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group, en Baugur var þá stærsti eigandi FL Group. 

Rannsókn sérstaks saksóknara á byrjunarstigi

Lögmaður slitastjórnar Glitnis lagði við fyrirtökuna í morgun fram beiðni um frestun málsins vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á sama sakarefni. Slitastjórnin sendi sérstökum saksóknara tilkynningu 11. apríl sl. um það sem gerðist á stjórnarfundi í Glitni 18. desember 2007, en þá var lánið til Baugs samþykkt, með tilliti til þess hvort um umboðssvik væri að ræða. Með bréfi frá sérstökum saksóknara frá 14. nóvember sl. var staðfest að málið væri til rannsóknar en rannsóknin væri á byrjunarstigi.

Fyrirhugað var að aðalmeðferð í skaðabótamálinu - alla vega einum hluta þess - færi fram 4.-7. desember næstkomandi. Alls óvíst er hvort af því verður en dómari málsins tók sér frest til ákvörðunar, en eftir atvikum úrskurðar, um ágreiningsefnið.

Reyndi að hafa hemil á hneykslun sinni

Lögmenn stefndu í málinu lögðust ekki beint gegn því að málinu verði frestað en sögðust ekki geta tekið afstöðu til málsins þar sem þeir væru í þoku um kröfu slitastjórnarinnar, s.s. þar sem tilkynningin til sérstaks saksóknari hefur ekki verið lögð fram í málinu. Í raun hafi þeir aðeins heyrt um helgina af tilkynningunni og að þessi rannsókn stæði yfir.

Meðal þeirra lögmanna sem tjáðu sig um málið var Jakob R. Möller, lögmaður Jóns Sigurðssonar. Hann rifjaði upp að stefna í málinu var gefin út 11. janúar 2012 og greinargerðum stefndu skilað í maí eða júní sama árs. Slitastjórnin hafi svo í apríl síðastliðnum sent sérstökum saksóknara tilkynningu um atburðina 18. desember 2007 í því skyni að hann tæki það til meðferðar. „Lögmaður Glitnis sá sig svo knúinn til þess sjö mánuðum eftir það að tilkynna dómnum og lögmönnum stefndu um að þetta bréf hefði verið sent.“ Hann sagðist ætla að reyna hafa hemil á hneykslun sinni en benti á að hann þekkti einfaldlega ekki dæmi við slík vinnubrögð.

Reimar Snæfells Pétursson, lögmaður Lárusar Welding, benti þá á að verulega langt sé síðan verklag í málinu var ákveðið og lengi legið fyrir að aðalmeðferð ætti að fara fram í desember. Því hafi mikill undirbúningur átt sér stað. „Ef það blasti við í apríl að það kynni að þurfa fresta málinu er einkennilegt að menn hafi verið settir í þá stöðu að undirbúa málið.“ Að öðru leyti gerði Reimar ekki athugasemdir við beiðnina enda líti umbjóðandi hans á að gagnlegt sé fyrir lyktir málsins að fá niðurstöðu í það. „En það er erfitt að tjá sig um þetta án þess að vita um hvað málið snýst.“

Enginn kvaddur til yfirheyrslu

Upplýst var um það við fyrirtökuna að enginn hinna stefndu í skaðabótamálinu hafi verið kvaddur til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara vegna rannsóknar embættisins. „Gagnvart þeim er þessi rannsókn ekki hafin. Og það er rétt að nefna það að fyrning hefur ekki verið rofin gagnvart neinum þeirra í málinu, sér þarna eitthvað kjöt á beini,“ sagði Jakob. Hann sagði athyglisvert að rannsókn sérstaks saksóknara sé á byrjunarstigi sjö mánuðum eftir að tilkynning til embættisins var send og séu stefndu í þoku um kröfu slitastjórnarinnar á meðan umrætt tilkynning hafi ekki verið lögð fram.

Sigurbjörn Magnússon, lögmaður Katrínar Pétursdóttur, sagðist telja eðlilegra en að fresta málinu að fella það alfarið niður. Það yrði þá leitt í ljós í sakamálarannsókninni hvort um refsiverði háttsemi hafi verið að ræða. Verði höfðað mál geti slitastjórnin haft uppi bótakröfu í því. Það væri eðlilegra.

Var dómþingi í kjölfarið frestað og boðaði dómari að ákvörðun hans, eða eftir atvikum úrskurður, liggi fyrir í næsta þinghaldi.

Lögmenn í málinu.
Lögmenn í málinu. mbl.is/Golli
Lárus Welding, fv. bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fv. bankastjóri Glitnis. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert