Ekki sama hver ræðir við vitni

Al Thani-málið í Héraðsdómi Reykjavíkur
Al Thani-málið í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsformaður í Al-Thani-málinu svonefnda var ekki samkvæmur sjálfum sér þegar hann fann að því að vitni hefðu rætt við verjendur þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar og Ólafs Ólafssonar fyrir aðalmeðferð málsins, ef marka má grein sem hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hefur ritað.

Í niðurlagi dóms í Al-Thani-málinu segir: „Við aðalmeðferð málsins kom fram að fjögur vitni hefðu átt fund með verjendum ákærðu, Hreiðars Más og Ólafs, fyrir aðalmeðferð málsins og þau kynnt sér gögn málsins á skrifstofu verjendanna. Samkvæmt 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 kynnir dómari ekki fyrir vitni skýrslur þess hjá lögreglu eða önnur sýnileg sönnunargögn fyrr en dómara þykir þess þörf til skýringar eða leiðréttingar skýrslu þess.

Með því að ræða við vitnin fyrir aðalmeðferð máls og sýna þeim sýnileg sönnunargögn var farið á svig við greind lagafyrirmæli, auk þess sem sú háttsemi var til þess fallin að rýra trúverðugleika vitnanna, sbr. 7. tl. 122. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert.“

Á vefsvæði sínu greinir Vilhjálmur frá máli skjólstæðings síns sem dæmdur var til refsingar af héraðsdómaranum Símoni Sigvaldasyni, dómsformanni í Al-Thani-málinu í mars 2009. Hann segir að héraðsdómur hafi byggt niðurstöðu sína að verulegu leyti á framburði þriggja vitna, lögreglumanna, sem komu fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. 

„Vitnið A upplýsti í héraðsdómi að sækjandi málsins hefði boðað vitnin til skýrslugjafar daginn áður og hefði vitnið farið á skrifstofu sækjandans og fengið þar afhent málsgögn. Vitnið gaf síðan nákvæma og greinargóða skýrslu um atvik málsins sem gerðust einu ári áður. Það er kunnara en frá þurfi að segja að framburður vitnisins var í fullkomnu samræmi við þau skriflegu sönnunargögn í málinu sem vitnið hafði nýlokið við að lesa.“

Vilhjálmur segir að í dóminum yfir manninum sé ekki vikið að því að ákæruvaldið hafi rætt við vitni fyrir aðalmeðferð málsins og kynnt þeim lögregluskýrslur og önnur sýnileg sönnunargögn. „Þvert á móti þá sakfelldi héraðsdómur ákærða athugasemdalaust á grundvelli vitnaframburða sem þannig voru fengnir, en framburður vitnanna réð úrslitum um sakfellingu ákærða.“

Hann segir að af þessu megi ráða að ákæruvaldinu sé heimilt að ræða við vitni og kynna þeim sönnunargögn áður en þau gefa skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð sakamála en verjendum sakborninga ekki. „Með því er vegið að grundvallarreglunni um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og jafnræði málsaðila.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert