Ólíklegt er að fallist verði á kröfugerð Hollenska seðlabankans (DNB) og breska innistæðusjóðsins (FSCS) gegn Tryggingasjóði innistæðueigenda vegna Icesave-innistæðna í löndunum tveimur. Þetta segir Karl Axelsson, annar þeirra lögmanna sem fara með málið fyrir hönd Tryggingasjóðs.
„Við höfum ekki mörg dæmi um málsóknir af þessu tagi, þetta er allt svo sérstakt og það á eftir að reyna á þessi sjónarmið. Auðvitað teljum við að það muni ekki verða fallist á þessa kröfugerð,“ segir Karl.
„Þetta er síðasti hlutinn af Icesave og nú fara þeir á tryggingasjóðinn sjálfan með þessa kröfu. Nú fer málið fyrir dómstóla, væntanlega mun lokaniðurstaða fást eftir 1-2 ár,“ segir Karl.
Hann segir að ekki sé búið að skila vörninni, þannig að ekki sé hægt að greina frá því hvernig farið verður með málið. „En við teljum varnirnar vera það sterkar þannig að ekki muni koma til þess að fallist verði á þessa kröfugerð.“
Að sögn Karls byggir krafan á því að það sem safnast hefur í sjóðinn frá hruni, sem eru iðgjöld nýju bankanna, verði einnig tekið til að greiða kröfuna og svokallaður aðskilnaður á milli deilda sjóðsins þannig rofinn. „Þeir telja sig eiga kröfur á sjóðinn óskertan. Ef það verður fallist á kröfur af þessum toga, þá er búið að tæma þennan sjóð sem á að tryggja okkur til framtíðar, ekki bara fyrir stórum viðburðum sem gerðust árið 2008, heldur er hann ætlaður til að verja gegn falli einstakra fjármálafyrirtækja.“
Vörn í málinu verður skilað í mars og að sögn Karls má búast við dómi í héraði í ár. „Það má miða við það, miðað við framgang mála hjá dómstólunum. En líklega eitthvað síðar hjá hæstarétti.“