Hafði enga hagsmuni af málinu

Steinþór Gunnarsson ásamt verjanda sínum.
Steinþór Gunnarsson ásamt verjanda sínum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Ég hafði enga hagsmuni af því að tilkynna þessi viðskipti,“ sagði Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbanka Íslands, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag við aðalmeðferð ákæru sérstaks saksóknara á hendur honum í svokölluðu Ímon-málið.

Steinþór er ákærður fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við kaup Ímons, félags í eigu Magnúsar Ármanns, á rúmlega 4% hlut í Landsbanka Íslands fyrir rúmlega fimm milljarða króna með láni frá bankanum haustið 2008 rétt áður en bankinn féll. Einnig er ákært vegna láns til félagsins Azalea Rescources í eigu Ari Salmivouri, finnsks fjárfestis og viðskiptafélaga Björgólfs Thors Björgólfssonar, upp á 3,8 milljarða króna á sama tíma. Telur sérstakur saksóknari að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til þess að láta líta út fyrir að eftirspurn væri eftir bréfum í Landsbanka Íslands.

Steinþór sagðist hafa komið að sölu á hlutnum til Ímons þegar málið var nánast frágengið. Hann muni það vel þar sem hann hafi verið „frekar fúll“ yfir því að viðskiptin hefðu ekki farið í gegnum hann. Hlutverk hans hafi verið að vera milliliður í viðskiptunum við frágang þeirra hvað varðaði það að ákveða verðið fyrir hlutinn. Hann hafi einfaldlega fengið staðfestingu á því að viðskiptin hefðu átt sér stað og skilaboð um að ganga frá þeim. Hann hafi síðan tilkynnt viðskiptin til Kauphallar Íslands eins og honum hafi borið skylda til samkvæmt lögum.

Hefði ekki tilkynnt óraunveruleg viðskipti

Steinþór lagði áherslu á að hann hefði aldrei tilkynnt viðskiptin til Kauphallarinnar ef hann hefði talið að ekki væri um raunveruleg viðskipti að ræða. Staðfesting á viðskiptunum hafi legið fyrir eftir lokun Kauphallarinnar á föstudegi en þau hafi verið tilkynnt fyrir opnun hennar á mánudagsmorgun. Þessi viðskipti hafi verið nákvæmlega eins og önnur slík frá hans bæjardyrum séð. Ennfremur hafi honum ekki borið skylda til þess að spyrjast nánar fyrir um málið. Þá hefði hann ekki komið að lánveitingunni til Ímon. Það hefði ekki verið á hans sviði.

Þá sagði Steinþór að hann hafi ekki vitað um lánveitinguna til félags Ari Salmivouri enda ekki heyrt undir hann. Hann hafi einungis verið í því að miðla bréfum. Frá hans sjónarhóli hefði Salmivouri allt eins getað átt laust fé fyrir viðskiptunum. Viðskiptin hafi átt sér stað fyrir milligöngu Landsbankans í Lúxemburg og það hefði aldrei gerst að slík viðskipti hefðu ekki gengið eftir. 

Frétt mbl.is: Aðferðir saksóknara svakalegar

Frétt mbl.is: Segjast ákærð fyrir að fara að lögum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert