Skipað að hundelta bankamenn

Sigurjón Þ. Árnason í dómsal í morgun.
Sigurjón Þ. Árnason í dómsal í morgun. mbl.is/Þórður

„Þegar ókyrrð skapast fara áhættusæknir menn á kreik, menn sem sjá tækifæri í því að koma inn í hlutafjárkaup,“ sagði Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns Þ. Árnasonar, fv. bankastjóra Landsbankans, við aðalmeðferð í Imon-málinu. Sigurður sagði ljóst að sýkna bæri Sigurjón og aðra sakborninga.

Málflutningur í Imon-málinu svonefnda hélt áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Eins og greint var frá á mbl.is í gær fer ákæruvaldið fram á að Sigurjón verði dæmdur í fimm ára fangelsi hið minnsta og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, verði dæmd í fjögurra ára fangelsi hið minnsta.

Sigurður fór í fyrstu yfir ákærulið IIa en í honum eru Sigurjón og Sigríður Elín ákærð fyrir umboðssvik með því að hafa í störfum sínum fyrir Landsbankann misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau í sameiningu veittu Imon ehf. rúmlega fimm milljarða króna lán til kaupa á hlutum í bankanum. Lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga, brotið hafi verið í bága við útlánareglur og vanrækt að bera lánið undir bankaráð Landsbankans.

Fara þarf yfir sögu Imon

„Til þess að setja lánveitinguna í samhengi við raunveruleikann, en ekki út frá eftiráspeki Fjármálaeftirlitsins eða sérstaks saksóknara, sem átti að rannsaka þetta mál hlutlægt en gerði ekki, þá verður að skoða viðskiptasögu félagsins Imon við Landsbanka Íslands frá 2007 til 2008. Það er athyglisvert að saksóknari sem á að fjalla jafnt um það sem getur leitt til sýknu og sakfellingar sleppti því alfarið að fjalla um sögu Imon,“ sagði Sigurður.

Í þessu samhengi benti hann á að Imon var fjárfestingafélag sem fyrst fékk lán hjá Landsbankanum 27. mars 2007. Þar var um að ræða lán upp á 638 milljónir króna til tveggja ára. Það lán notaði Imon til að kaupa hlut í Byr og var hlutur sem félagið átti fyrir í Byr notaður að veði. Imon fékk síðar lán upp á 1,5 milljarða króna og aftur lánalínu upp á tvo milljarða til að taka þátt í stofnfjáraukningu í Byr.

Vegna þessara lánveitinga til Imons var tekið fram að eigandi þess væri Magnús Ármann, gríðarlega sterkur fjárfestir sem hefði í gegnum tíðina átt í góðum viðskiptum við Landsbankann. Hann hafi jafnframt verið stærsti eigandi í Byr.

Sigurður benti á að í bréfi sem Sigurjón ritaði sérstökum saksóknara á árinu 2009 komi fram að það hafi verið mat hans á þeim tíma sem lánið var veitt að hagstætt væri fyrir Landsbankann að stærsti eigandi Byrs væri einnig stór hluthafi í Landsbankanum.

Ræddi hvorki við Sigurjón né Sigríði Elínu

Samkvæmt því sem Sigurður sagði sá Magnús Ármann tækifæri haustið 2008. Þá fóru bréf Landsbankans lækkandi og ókyrrð var á markaði. Hann hafi þá séð sama tækifæri og sumarið 2006 þegar hlutabréf í Landsbankanum lækkuðu mikið, þá hafi Magnús tekið stóra stöðu. Enda hafi Magnús frá upphafi svarað því til að hann hafi litið á Landsbankann í þessari stöðu sem góðan fjárfestingakost.

Hann sagði einnig að Magnús hefði borið sig rétt að þegar kom að kaupunum á bréfunum. Hann hefði aldrei rætt hlutabréfakaupin við Sigurjón eða Sigríði Elínu, enda hefðu þau ekki haft nokkuð með hlutabréfasölu í Landsbankanum að gera. Eftir að hafa lýst áhuga sínum á að kaupa bréf í bankanum hafi hann rætt það við viðskiptastjóra sinn hvort hægt væri að fá lán fyrir viðskiptunum.

Í kjölfar þess hafi verið útbúin lánaumsókn og viðskiptastjóri Magnúsar hafi fylgt við það öllum reglum Landsbankans. Í kjölfarið hefði hann rætt við sinn næsta yfirmann sem var Sigríður Elín og þau við Sigurjón. Um það væri ekki ágreiningur. Saman hefðu Sigurjón og Sigríður Elín staðið að því að taka ákvörðun um að lána Imon. „Við það er ekkert að athuga. Þetta var allt gert eftir reglunum.“

Sigurður sagði að almennt séð hefði Sigurjón verið á móti því að lána á móti veði í hlutabréfunum sjálfum en í þessu tilviki hefðu verið viðskiptalegar forsendur. Imon hefði lagt fram frekari tryggingar, þ.e. hlut í Byr. „Ef horft er til alls þessa, sem er hin raunsanna mynd af Imon og samskiptum Magnúsar Ármann við aðila innan Landsbankans, þá er bara ekkert saknæmt við þessi viðskipti. Þau verða ekki saknæm vegna þess að fólki dettur það bara í hug, fólki sem sagt er af stjórnvöldum að það verði að hundelta bankafólk. Brot verða að eiga sér rót í lagareglum.“

Rannsókn hófst út frá úreltum reglum

Hvað varðar þá röksemd ákæruvaldsins að Sigurjón og Sigríður Elín hefðu misnotað vald sitt sagði Sigurður að horfa yrði til þeirra heimilda sem þau höfðu til lánveitinga. „Og þar er eina gagnið sem hægt er að horfa til útlánareglur Landsbanka Íslands sem gefnar voru út í ágúst 2008.“

Helga Melkorka Óttarsdóttir, verjandi Sigríðar Elínar, benti í þessu sambandi á að við upphaf rannsóknar málsins hefði gætt ákveðinnar vanþekkingar á því hvaða útlánareglur voru í gildi. Fjármálaeftirlitið hefði verið með eldri útlánareglur og rannsóknin hefði hafist á grundvelli þeirra. „Niðurstaðan af röngum forsendum getur aldrei orðið önnur en röng.“

Hún sagði að sérstakur saksóknari hefði ekki aðeins byrjað með eldri reglur heldur hefði  ákveðinn ruglingur haldið áfram eftir að hann áttaði sig á því, þá um gildissvið reglnanna. Reglurnar hefðu verið settar af bankastjórn, bankastjórunum tveimur, en ekki bankaráði.

Sigurður sagði að tilgangur reglnanna hefði verið að setja meginreglur um útlán til viðskiptamanna. Lánanefndin hefði hins vegar verið æðsta vald í lánamálum og hefði tekið ákvarðanir um lán sem falli ekki innan heimilda annarra. Í lánanefndinni voru bankastjórarnir tveir og Sigríður Elín. „Með lánareglunum var settur ákveðinn rammi en frá þeim mátti lánanefndin víkja.“

Meirihluti lána samþykktur milli funda

Til þess að samþykkja lán utan funda lánanefndar Landsbankans þurfti samþykki bankastjóra og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. Báðir bankastjórar þurftu ekki að samþykkja lánveitinguna. Sigurður sagði að skjólstæðingur sinn hefði hjá sérstökum saksóknara beðið rannsakendur að afla gagna um starfsemi lánanefndar Landsbankans á árunum 2007 og 2008. „Auðvitað var ekki orðið við þessari beiðni vegna þess að hún gat sýnt fram á að hugmynd rannsakenda um brotastarfsemi Sigurjóns átti ekki við nein rök að styðjast.“

Sigurjón lét sjálfur gera athugun á starfsemi lánanefndarinnar. Niðurstöðurnar voru þær að árið 2007 hélt lánanefndin 47 fundi, á þeim fundum voru 1.486 lánamál afgreidd, þar voru 946 afgreidd á milli funda eða 64% lánanna. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2008 voru tuttugu fundir haldnir og á þeim fundum 478 lánamál afgreidd, þar af voru 352 samþykkt utan funda eða 74% lánanna.

Rétt tæplega sextíu prósent þeirra lánamála sem samþykkt voru milli funda voru samþykkt af Sigurjóni og Sigríði Elínu og undirritaði Sigurjón allar millifundasamþykktir á árinu 2008.

Sigurður vísaði til þess sem Halldór J. Kristjánsson, annar bankastjóra Landsbankans, sagði við skýrslutöku fyrir dóminum. Hjá honum kom fram að millifundasamþykkt þar sem Sigurjón og Sigríður Elín skrifuðu upp á hefði verið endanleg og formleg ákvörðun um lánveitingu. Þegar búið hefði verið að ganga frá millifundasamþykkt á þann veg hefði bankinn verið bundinn af henni og málið formlega frágengið.

Lánamál fóru ekki fyrir bankaráðið nema þau vörðuðu eigendur bankans og reglum hefði  verið fylgt í einu og öllu, enda hefði innri endurskoðun, sem laut ekki stjórn bankastjóra heldur bankaráðs, ekki gert neina athugasemd við lánaafgreiðslur.

Komu ekki að viðskiptunum

Í ákærulið IIb eru þau Sigurjón og Sigríður Elín ákærð fyrir markaðsmisnotkun með viðskiptunum við Imon og tilkynningu þeirra til Kauphallarinnar. Segir í ákæru að þar sem fjárfestar hafi ekki verið upplýstir um að Landsbankinn fjármagnaði viðskiptin hefðu þau gefið ranga og misvísandi mynd.

„Það er rétt að taka það strax fram að allt í þessari verknaðarlýsingu er rangt og ósannað og það sama á við um rökstuðninginn,“ sagði Sigurður. Hann sagði að það eina rétta í þessum ákærulið væri að Imon hefði átt viðskipti við Landsbankann 30. september 2008 og að Landsbankinn hefði lánað Imon fyrir kaupverðinu.

Hann sagði Sigurjón ekkert hafa komið að þessum viðskiptum. Hann hefði komið að lánveitingunni en ekki viðskiptunum, verðbréfamiðlun bankans hefði séð um þau. Sigurjón hefði einnig ekkert komið að tilkynningunni til Kauphallarinnar og hann hefði ekki mátt koma að þessum tveimur þáttum.

Hins vegar hafi það verið skylda að tilkynna viðskiptin og það hafi verið gert með réttu. „Það var enginn feluleikur eða blekking með þessi viðskipti. Allar breytingar á hluthafaskrá eru uppfærðar á föstudögum þannig að það var ljóst 3. október 2008 að Imon var orðinn stór hluthafi. Það var engin sýndarmennska, enginn feluleikur og ekkert brot þarna að baki. [...] Það er ekkert athugavert við þetta og það sem meira er, Sigurjón hafði bara ekkert með málið að gera. Hann getur ekki hafa verið sekur um ásetning og varla um gáleysi enda vissi hann ekkert um þetta.“

Undir þetta tók Helga Melkorka. Hún sagði Sigríði Elínu einfaldlega ekki hafa komið að þessum þáttum málsins, það hefði ekki verið í hennar verkahring. Hún hefði aldrei komið að viðskiptum með hlutabréf í bankanum. „Það eitt að samþykkja lán getur aldrei fallið undir þessa verknaðarlýsingu, þ.e. að eiga viðskipti. Því er einnig mótmælt sem kom fram hjá sækjanda að lánveitingin geti falið í sér markaðsmisnotkun.“

Hún sagði ákæruvaldið ekki hafa lagt nein gögn fram um að Sigríður Elín hefði komið nálægt þessum viðskiptum. Hún hefði ekki haft frumkvæði að því að bréfin voru boðin Imon til kaups og hún hefði ekki lagt á ráðin um að viðskiptin. Hún hefði ekki komið að tilkynningunni eða hennar undirmenn að efni hennar. „Aðkoma hennar einskorðast við það hvort lánveitingin til Imon hefði verið bankanum til hagsbóta. Hún taldi svo vera.“

Þau sögðu svo að bankastarfsmönnum væri hreinlega bannað að upplýsa um málefni viðskiptavina sinna. Það hafi því ekki mátt tilkynna það til Kauphallar hvernig kaupin á hlutabréfunum voru fjármögnuð. „Hvernig á þá verðbréfamiðlari að segja frá því að það hafi verið veitt lán út á hlutabréfin? Það mátti ekki gera það, markaðurinn þurfti ekki að vita það,“ sagði Sigurður og bætti við að þeir sem spili á markaðnum viti hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Ævintýralegir ákæruliðir

Í ákæruliðum III og IV eru Sigurjón og Steinþór ákærðir fyrir markaðsmisnotkun við sölu á hlutum í bankanum til Imon og Azalea 3. október 2008. Í báðum tilvikum var ekki búið að ganga frá fjármögnun kaupanna en viðskiptin voru engu að síður tilkynnt til Kauphallarinnar sama dag. Samkvæmt því sem kemur fram í ákærunni þá var það Sigurjón sem tók ákvörðun um viðskiptin en Steinþór tilkynnti þau.

Sigurður sagði að þessir ákæruliðir væru ævintýralegir þar sem ekki eitt sönnunargagn tengi Sigurjón við þessi viðskipti. Hann sagði hins vegar merkilegt að ákæruvaldið hefði ekki skoðað hvaðan eigandi Azalea kom. Hann sé viðskiptafélagi Björgólfs Thor Björgólfssonar til margra ára, og það sé starfsmaður Samsonar sem leiði hann til Landsbankans í Lúxemborg.

Hann sagði að það gæti vel verið að aðrir hefðu haft hagsmuni af því að „möndla“ með bréf í Landsbankanum, það hafi þó ekki verið Sigurjón. Þannig hafi fyrir þessi viðskipti komið fram að Samson, félag Björgólfsfeðga, hefði verið við það að lenda í veðköllum vegna verðmætisrýrnunar Landsbankans. Það hefði því verið nauðsynlegt fyrir eigendur bankans að halda verðinu uppi. „Mér finnst eins og böndin beinist að öðrum en Sigurjóni og Steinþóri Gunnarssyni í þessum þætti málsins,“ sagði Sigurður.

Hann vísaði einnig til þess að eigandi Azalea hefði sagst hafa fengið upplýsingar um það frá félaga sínum í finnska seðlabankanum að bankinn ætlaði að aðstoða íslenska bankakerfið. „Hann var með innherjaupplýsingar og hann ætlaði að taka séns á því að það sama gerðist á Íslandi og í Finnlandi [...] að hann myndi moldgræða.“

Sigurður sagði að svo ætli ákæruvaldið að hengja þessa bjöllu um hálsinn á Sigurjóni en það sé „ævintýralega rangt“. „Allt frá því Sigurjón fór í fyrstu yfirheyrslu árið 2009 hefur allt miðað að því að hengja á hann sekt, jafn saklaus og hann er. Það hefur aldrei farið fram hlutlæg rannsókn á einu né neinu sem varðar Sigurjón Þ. Árnason. Það hefur verið gengið út frá því frá upphafi að hann sé maður sem verði með einhverjum hætti að koma bak við lás og slá,“ sagði Sigurður og að það væri vegna þess að hann hefði verið bankastjóri Landsbankans sem hefði átt Icesave.

Fimm ára martröð Steinþórs

Í máli Lárentsínusar Kjartanssonar, verjanda Steinþórs, kom fram að fjölmörg atriði væru ágreiningslaus með öllu og útilokað væri að sjá hvað Steinþór gerði til að kalla yfir sig þessa „fimm ára martröð“.

Hann nefndi að Steinþór hefði ekkert frumkvæði haft að þeim viðskiptum sem ákært er fyrir og frétti hann af þeim sama dag og hann miðlaði þeim og tilkynnti til Kauphallarinnar. Steinþór hefði ekki haft heimild til að lána pening og hann aðstoðaði viðskiptavini aldrei við fjármögnun. Í starfi sínu hafði hann ekki hugmynd um hvernig viðskipti vori fjármögnuð eða hvaða tryggingar voru lagðar fram og hann þurfti ekki staðfestingu á fjármögnun viðskipta. Ef samþykki kom frá rétta fólkinu þá mátti hann treysta því að kaupin væru fjármögnuð. Þá bar honum að tilkynna um viðskipti um leið og þau voru staðfest. Og það gerði hann.

Lárentsínus sagði Steinþór hafa unnið vinnu sína þennan dag, 3. október 2008, eins og hvern annan dag hjá Landsbankanum. Það sé fullkomið skilningsleysi hjá ákæruvaldinu á verkefnum miðlara að halda því fram að hann sé lykilmaður í þessu máli. Það sé hrein og klár fjarstæða og fjarstæðukennt að þennan umrædda dag hafi honum dottið í hug, eftir tíu ára starf, að ætla sér að blekkja markaðinn.

Ennfremur sagði hann útilokað að sjá hvernig Steinþóri mátti vera ljóst að umrædd viðskipti væru frábrugðin einhverjum þeim öðrum sem hann miðlaði á hverjum tíma. „Það voru engar viðvörunarbjöllur sem hringdu hjá ákærða, enda engin ástæða til. [...] Í upphafi og á endastöð þessarar rannsóknar virðist sem grunur á hendur mínum skjólstæðingi hafi byggst á einhverju hugboði eða tilfinningu rannsakenda, því þetta styðst ekki við nokkur einustu gögn.“

Þrjátíu milljóna króna lögmannsreikningur

Sigurður rifjaði upp að rannsókn málsins hafi hafist 10. júlí 2009 en þá var Sigurjón kallaður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara. Samkvæmt tímaskráningu Sigurðar hefur hann síðan þá varið 1.415 klukkustundum í verjendastörf vegna málsins. Samkvæmt verðskrá skrifstofu hans gera það um þrjátíu milljónir króna.

Helga Melkorka sagði jafnframt að hún hefði varið tæplega sjö hundruð klukkustundum í málið. Heldur voru þó tímarnir færri hjá Lárentsínusi en hann kom ekki að málinu á rannsóknarstigi.

Dómur verður kveðinn upp á næstu vikum. 

Sigríður Elín Sigfúsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Sigríður Elín Sigfúsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þórður Arnar Þórðarson
Lárentsínus Kristjánsson og Steinþór Gunnarsson, skjólstæðingur hans.
Lárentsínus Kristjánsson og Steinþór Gunnarsson, skjólstæðingur hans. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert