„Við erum ekki að gefast upp“

Úr myndbandinu.
Úr myndbandinu.

„Við fór­um í það að gera þetta mynd­band um Djúpa­vog til þess að sýna að það er líf hér á svæðinu, það er fólk og kraft­ur í sam­fé­lag­inu. Við erum ekki að gef­ast upp,“ seg­ir Andrés Skúla­son, odd­viti Djúpa­vogs­hrepps, í sam­tali við mbl.is.

Sveit­ar­fé­lagið hef­ur látið vinna mynd­band í sam­starfi við og með stuðningi Afls starfs­greina­fé­lags til þess að vekja fólk til um­hugs­un­ar um stöðu sveit­ar­fé­lags­ins en fyrr á ár­inu ákvað út­gerðafyr­ir­tækið Vís­ir í Grinda­vík að hætta starf­semi sinni á staðnum með þeim af­leiðing­um að fjöldi starfa hverf­ur frá hon­um. Mynd­band­inu sé þó ekki beint að fyr­ir­tæk­inu held­ur að stjórn­völd­um.

„Við höf­um snúið bar­áttu okk­ar nær al­farið að stjórn­völd­um. Þau geta ein breytt fri­sk­veiðistjórn­un­ar­kerf­inu þannig að svona sam­fé­lög geti lifað af. Við höf­um beitt öll­um þess­um hefðbundnu aðferðum gagn­vart stjórn­völd­um til þess að sækja rétt okk­ar og þar sem þær hafa ekki dugað ákváðum við að fara óhefðbundn­ar leiðir eins og þessa,“ seg­ir hann.

Kvik­mynda­gerðar­menn hafi verið fengn­ir á staðinn til þess að gera mynd­bandið og sýna fólki um hvað málið snýst. Draga upp rétta mynd af stöðu mála í sveit­ar­fé­lag­inu. „Bæði já­kvæðu punkt­um sem eru í gangi og síðan verstu hugs­an­legu af­leiðing­um sem þetta gæti haft ef það færi á versta veg. Vekja al­menn­ing til um­hugs­un­ar og ekki síður stjórn­völd. Það er komið að ákveðnum mörk­um í þessu, það verður ekki gengið lengra gagn­vart þess­um byggðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert