Nafnar útskrifuðust úr Harvard

Nafnarnir ásamt börnum sínum á útskriftardaginn. Til vinstri er Friðrik …
Nafnarnir ásamt börnum sínum á útskriftardaginn. Til vinstri er Friðrik Ársælsson en til hægri Friðrik Hirst. Friðrik Ársælsson

 „Það sakar í það minnsta ekki að bera þetta germanska nafn. Af þeim fjórum Norðurlandabúum sem eru í náminu núna erum við þrír sem berum nafnið, við nafnarnir og Fredrik félagi okkar frá Svíþjóð,“ segja þeir Friðrik Ársælsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst sem báðir útskrifuðust með LL.M. gráður frá lagadeild Harvard háskóla í gær.

Meira en bara nafnar frá litla Íslandi

Nafnarnir búa nú báðir í Cambridge í Massachusetts ásamt fjölskyldum sínum og er þeim vel til vina. Þeir voru málkunnugir fyrir námið og bjuggu í sama hverfi í æsku, en þekktust þó ekki mikið. Friðrik Árni er sonur alþingismannsins Elínar Hirst og Friðriks Friðrikssonar, framkvæmdastjóra Skjásins. Friðrik Árni var nokkrum árum á eftir nafna sínum Ársælssyni í lagadeildinni á Íslandi, en sá er sonur framhaldsskólakennarans Ársæls Friðrikssonar og Ingveldar Einarsdóttur, hæstaréttardómara. 

Þegar það var orðið ljóst að við hefðum báðir komist inn hittumst við með eiginkonum okkar og skipulögðum margt í sameiningu. Fyrir vikið erum við ekki bara nafnar frá litla Íslandi, heldur búum við í sömu götunni hér í Cambridge og djúp vinátta hefur myndast meðal okkar og fjölskyldnanna“.

Friðrik Ársælsson og eiginkona hans Rakel Eva Sævarsdóttir eiga saman einn son, Benedikt, og Friðrik Árni og eiginkona hans Vigdís Margrétar Jónsdóttir eiga börnin Margréti Stefaníu og Friðrik Ólaf, öll á aldrinum eins til þriggja ára.

„Þetta hefði ekki verið hægt án þeirra,“ eru þeir sammála um.

181 lögfræðingur frá 65 löndum

LL.M.  er meistaragráða fyrir lögfræðinga sem lokið hafa lagaprófi frá öðrum háskóla, alla jafna utan Bandaríkjanna. Þar hanna nemendur sína námsbraut sjálfur og velja úr 500 námskeiðum sem kennd eru við deildina. Friðrik Ársælsson er með gráðu í félagarétti, bæði frá lagadeildinni og Harvard Business School, auk þess sem hann hefur lokið námskeiðum í efnahagsbrotum og réttarfari. Friðrik Árni tók aftur á móti almenna gráðu sem samanstendur af réttarfari, refsirétti, félagarétti og einnig þverfaglegri nálgun á lögin frá sjónarhóli hagfræði, sálfræði og heimspeki.

Nafnarnir segja fjölmarga kosti felast í því að læra erlendis og vinna með ólíku fólki.

„Nemendahópurinn er mjög fjölbreyttur og samanstendur af 181 lögfræðingi frá 65 löndum. Það er ótrúlega gaman að vinna með fólki með ólíkan bakgrunn og viðhorf en fagleg fjölbreytni er einn af helstu kostum laganáms í Bandaríkjunum“.

Vingjarnlegir, alvörugefnir og einbeittir nemendur

Námið og aðbúnaður við skólann er eins og gefur að skilja í hæsta gæðaflokki og nemendur hafa alltaf nóg fyrir stafni.

„Nemendur við deildina eru mjög vingjarnlegir en á sama tíma alvörugefnir og einbeittir, ekki síst Bandaríkjamennirnir. Það er alltaf talsvert mikið um að vera, ekki síst á hinum akademíska vettvangi. Á nánast hverjum degi eru málþing, ræðuhöld og vinnustofur nemenda þar sem tekin eru fyrir málefni líðandi stundar“.

Starfið í deildinni er þó ekki einskorðað við námið, en mikill metnaður er einnig lagður í félagslíf skólans.

„Það starfa ýmis íþróttafélög við skólann og Harvard býr yfir keppnisliðum í róðri og amerískum fótbolta, svo að fátt eitt sé nefnt. Skólinn leggur mikið upp úr öflugu félagslífi og hvetur nemendur til þess að mynda öflugt tengslanet og halda hópinn að útskrift lokinni“.

Margt ólíkt því sem þekkist heima

Það er ekki alltaf auðvelt fyrir þá Friðrik og Friðrik að gefa sér tíma fyrir félagslíf samhliða erfiðu námi, en skemmtanalíf laganema í Harvard er þó nokkuð ólíkt því sem þekkist hérlendis.

„LL.M. hópurinn hittist nánast í hverri viku og það getur því reynst strembið að sameina námið, félagslíf og fjölskylduna. Hins vegar er mun minna um þessar hefðbundnu laganemaskemmtanir eins og bjórkvöld. Svonefndir „kokteilar“ eða „vísindaferðir“ eru óþekkt fyrirbæri, en eru á hinn bóginn lifibrauð íslenskra laganema. Heilt á litið er fólk mjög önnum kafið og metnaðarfullt með námið í fyrsta sæti og skemmtanalífið í öðru“.

Kröfurnar í deildinni eru miklar, en rétt eins og með félagslífið eru áherslur þar nokkuð ólíkar því sem gerist hérlendis.

„Sökum vikulegra verkefnaskila og hinnar frægu „cold call“ aðferðar Harvard, sem má líkja við að taka nemanda upp á töflu, mæta allir mjög vel lesnir í tíma. Eftirleikurinn, hvort sem það eru próf eða verkefnaskil, er því auðveldari en ella“. 

Í prófum í Harvard fá nemendur jafnan að hafa með sér glósur og námsgögn, en þar er meira lagt upp úr kennslu í aðferðafræði og sjálfstæðum rannsóknum heldur en einungis utanbókarlærdómi.

„Aukin áhersla er á að draga upp heildarmyndina af hverju fagi um sig og að kenna nemendum aðferðir til að greina og leysa úr lögfræðilegum álitaefnum, í stað þess að láta fólk leggja sérhvert smáatriði á minnið fyrir próf líkt og er stundum raunin í íslensku deildunum. Þannig eru Harvard prófin iðulega svonefnd „open book“ sem þýðir að nemendur mega hafa með sér námsgögn og glósur í prófið“.

Félagarnir telja fyrirkomulag kennslunnar í Harvard gott og segja það veita góðan undirbúning til framtíðar.

„Mikið lagt upp úr sjálfstæðum rannsóknum nemenda og byggjast margir kúrsar nær eingöngu á stuttum ritgerðum um valin efni og umræðu í kennslustundum. Við erum sammála um að þetta sé heppilegra fyrirkomulag í háskólanámi, að þjálfa fólk í lögfræðilegri hugsun almennt, ekki aðeins í upphafi náms heldur í gegnum allt laganámið frá upphafi til enda. Það er einmitt sem situr eftir að loknu námi og er verðmætasta veganestið til framtíðar“.

Ekki ókeypis að læra í Bandaríkjunum

Nám í Harvard kostar sitt, enda fara þangað fáir Íslendingar og greiða full skólagjöld. Nafnarnir hlutu báðir góða námsstyrki, en segja framfærsluna vera stærsta kostnaðarliðinn sem þeir glíma við.

„Cambridge er með dýrustu stöðum í Bandaríkjunum, þrátt fyrir að þetta sé fyrst og fremst skólabær. Stærstur hluti kostnaðarins er framfærslan, enda leiguverð hátt og tiltölulega dýrt að kaupa í matinn. Við það bætist töluverður kostnaður vegna sjúkratrygginga sem er nýtt fyrir Íslendingum“.

Friðrik Ársælsson fékk Fulbright styrk og svokallaðan Frank Boas styrk. Friðrik Árni fékk hins vegar styrki frá Stofnun Leifs Eiríkssonar og Fulbright. Fyrir utan fjárhagsstuðninginn hefur Fulbright staðið fyrir námskeiðum í öðrum hlutum Bandaríkjanna, í Reno, Atlanta og Pittsburgh.

Stefna báðir heim að námi loknu

Það er engin ein töfraformúla við að komast til náms í Harvard, en fjölbreyttur bakgrunnur sameinar flesta í deildinni að sögn nafnanna. Þeir segja jafnframt að nám erlendis snúist um miklu meira en kennslubækurnar einar og sér.

„Margir hér hafa unnið að spennandi verkefnum, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera, og tekist að flétta það saman við kennslu, félags- og hugsjónarstörf, tónlist, íþróttir eða annað. Nám erlendis snýst ekki aðeins um námið sjálft heldur líka það að kynnast fólki frá ólíkum menningarheimum, sem er ómissandi lífsreynsla í alla staði“.

Eftir námið hyggst Friðrik Árni snúa aftur til starfa sem fulltrúi og héraðsdsómslögmaður hjá lögmannsstofunni Juris í Borgartúni, en þar hefur hann unnið um árabil. Hjá Friðriki Ársælssyni er hins vegar ekkert meitlað í stein enn sem komið er.

„Stefnan er tekin á Ísland, þó framtíðin sé enn óráðin,“ segir hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert