Kerfisbundin „mistök“ saksóknara

Sérstakur saksóknari og teymið hans.
Sérstakur saksóknari og teymið hans.

Lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar kærði í fyrra rannsóknaraðgerðir sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara, þ.e. hlerun og geymslu samtala á milli hans og Hreiðars. Saksóknari hélt því fram að um misgáning hafi verið að ræða eða slys og tók ríkissaksóknari það gott og gilt, án frekari rannsóknar.

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum lét fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur þess getið í niðurstöðukafla dóms í Imon-málinu svonefnda að rann­sókn­araðgerðir sér­staks sak­sókn­ara, eins og að þeim var staðið, fælu í sér brot gegn til­tekn­um ákvæðum laga um meðferð saka­mála. Brotin fólust í því að hlustað var á sím­töl sak­born­inga og verj­enda þeirra og upp­tök­um sím­tal­anna ekki fargað.

Sig­urður G. Guðjóns­son, verjandi Sigurjóns Þ. Árnasonar í Imon-málinu, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að þetta snerti marga lögmenn og að oft hefði verið kvartað yfir rannsóknaraðgerðum sérstaks saksóknara hvað þessi atriði varðar. 

Einn þeirra sem ekki aðeins kvartaði heldur kærði símhleranir sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara er Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar. Hann segist hafa komist að því fyrir tilviljun að samtöl hans Hreiðars voru hleruð og vistuð hjá sérstökum saksóknara.

Hann fékk það síðar staðfest hjá embættinu að þetta hefði verið gert en sérstakur saksóknari bar við að um slys hefði verið að ræða. Ríkissaksóknari tók þær skýringar góðar og gildar og taldi ekki ástæðu til að halda áfram með málið. Hörður segir það sérstakt enda séu brot af þessu tagi refsiverð þótt þau séu framin af gáleysi.  Um er að ræða brot gegn réttindum sem varin eru af stjórnarskrá og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu.

Mat skýringarnar fullnægjandi

Í bréfi sérstaks saksóknara til Harðar og ríkissaksóknara segir orðrétt: „Skýringin á því hvers vegna umræddum símtölum var ekki eytt á réttum tíma eru eftirfarandi: Þau símtöl sem hlustuð voru á umræddum tíma voru tekin upp með aðstoð tölvurannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þau voru síðan hlustuð af rannsakendum málsins sem skráðu niður í stuttu máli í sérgreint ritvinnsluskjal það sem þeim þótti skipta máli og tengjast rannsókn viðkomandi mála jafnóðum og þeir fóru yfir símtölin. Brýnt var fyrir þeim að hætta að hlusta á símtöl þegar í ljós kæmi að sakborningur væri að ræða við verjanda sinn og skrá þá alls ekki niður í viðkomandi skjal það sem fram hefði komið í símtalinu áður en það varð ljóst.

Einhver þeirra starfsmanna sem skráði niður símtölin með þessum hætti virðist hins vegar hafa gert þau mistök að geta alls ekki um þessi símtöl í því minnisblaði sem útbúið var vegna hlustunarinnar. Leiddi það til þess að þegar útbúinn var listi í kjölfarið um hvaða símtölum skyldi eyða voru þessi símtöl ekki á listanum.“

Sérstakur saksóknari tekur sérstaklega fram að aldrei hafi verið hlustað á þessi símtöl við rannsókn málanna þannig að trúnaður hafi verið virtur.

Niðurstaða ríkissaksóknara var að hætta rannsókninni. Í stuttu bréfi til Harðar segir: „Ríkissaksóknari metur þær skýringar fullnægjandi. Að því virtu þykja ekki efni til frekari rannsóknar á ætluðum brotum starfsmanna sérstaks saksóknara.“

Ekki einstakt tilvik kerfisbundin framkvæmd

Hörður segir að umfjöllunin um þetta efni í Imon-málinu bendi eindregið til þess að ekki hafi verið um nein mistök eða einstakt tilvik að ræða. „Þetta ber öll mekri þess að um kerfisbundna framkvæmd hafi verið að ræða,“ segir Hörður og bætir við að kæra hans fái annað vægi þegar dómstóll hefur beint kastljósinu að þessu og staðfest sem er, að um sé að ræða klárt brot gegn lögum.

Hreiðar Már var dæmdur í svonefndu Al-Thani-máli og segir Hörður Felix að bent hafi verið á sömu atriði og í Imon-málinu við meðferð þess fyrir dómi. Engu að síður hafi fjölskipaður dómur í Al-Thani-málinu ekki séð ástæðu til að skoða þetta sérstaklega. Hins vegar hafi verið fundið að því að verjendur höfðu samband við vitni við undirbúning aðalmeðferðar, þótt engin réttarregla sé til sem banni slík samskipti. „Þetta skýtur dálítið skökku við, svo ekki sé meira sagt,“ segir Hörður.

Um afleiðingu þess að saksóknari hafi brotið gegn reglum með þessum hætti segir Hörður: „Dómstólar hér á landi hafa verið tregir til að vísa málum frá vegna annmarka á rannsókn. Hér er hins vegar um að ræða slík grundvallarréttindi sakborninga að það er óhugsandi að brot af þessu tagi hafi engar afleiðingar. Sú staða er með öllu ótæk að lögregla getið tekið upp samtal sakbornings og verjanda hans við rannsókn máls og borið því við eftir á að um einhvers konar mistök hafi verið að ræða. Þetta hefur sýnilega verið framkvæmdin við rannsókn margra mála og það sannfærir mig enginn um að ekki hafi verið hlustað á þessi símtöl.“

Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson, skjólstæðingur hans í …
Hörður Felix Harðarson og Hreiðar Már Sigurðsson, skjólstæðingur hans í Al-Thani-málinu. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert