Þróaði vélmenni við MIT

Sigurður ásamt vélmennunum. Nexi er honum á hægri hönd, en …
Sigurður ásamt vélmennunum. Nexi er honum á hægri hönd, en Maddox á vinstri. Ljósmynd/Sigurður Örn Aðalgeirsson

Vélmenni og gervigreind voru í forgrunni hjá Íslendingnum Sigurði Erni Aðalgeirssyni sem lauk doktorsprófi frá MIT háskólanum í Massachusetts síðastliðinn föstudag.

„Ég hef sérstakan áhuga á þróun tækni sem hjálpar vélmennum að umgangast fólk og hafa einfaldaðan grunnskilning á mannlegri hegðun,“ segir Sigurður.

„Þetta gerir þeim kleift að vera hjálplegri og vinna betur í blönduðum teymum vélmenna og fólks.“

Eykur skilning vélmenna

Sigurður hefur síðustu árin unnið að verkefninu „Mind-Theoretic Planning for Social Robots“. Í grunninn felst verkefnið í að gefa vélmennum skilning á því að fólk í umhverfi þeirra geti haft aðra sýn á og upplýsingar um heiminn, sem og önnur markmið.

„Tæknin leyfir vélmenninu að nota óvissar upplýsingar um vitneskju og markmið fólksins. Þannig getur það skipulagt hegðun sína með það að markmiði að hámarka líkurnar á góðum árangri í starfi,“ segir Sigurður.

Við verkefni sitt vann Sigurður að þróun tveggja vélmenna, þeirra Nexi og Maddox. Þau eru bæði af svokallaðri MDS tegund, en skammstöfunin stendur fyrir „Mobile, Dexterous and Social“ og táknar að vélmennin geti hreyft sig, átt við hluti í umhverfi sínu og séu félagslega hæf.

Sigurður segir að meirihluti vinnunnar við vélmenni af þessari gerð felist í umhirðu og viðhaldi, en reynt er að þróa sem stærstan hluta vinnunnar í tölvuhermum áður en hlutir eru prófaðir á vélmennunum sjálfum.

„Við notum vélmennin í hinar ýmsu tegundir rannsókna hérna í hópnum mínum og var doktorsverkefniskerfið mitt að miklu leyti þróað með það í huga. Annars er það þannig með alla vinnu sem tengist vélmennum að 20% tímans fara í að þróa áhugaverðar hugmyndir og 80% tímans fara í að laga og skipta um mótora, rær, belti, rafstýringar og fleira.“

MIT alltaf draumaskólinn

Sigurður segist eiga fjölskyldu sinni mikið að þakka, en hann er alinn upp í Mosfellsbæ hjá móður sinni, Helgu Elísabetu Jónsdóttur, og stjúpföður, Vilhjálmi Heiðdal Walterssyni. Hann á þó einnig rætur að rekja til Akureyrar, en þar býr faðir hans, Aðalgeir Sigurðsson. Sigurður útskrifaðist af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð áður en hann fór til náms í rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Hann segir MIT hafi alltaf verið draumskólann.

„Í HÍ hlaut ég góða menntun og undirbúning fyrir framhaldsnámið í góðum félagsskap. MIT er síðan auðvitað vel þekktur, en er sérstaklega framarlega á sviðum vélmenna og gervigreindar sem eru mín áhugasvið. Skólinn og umhverfið bjóða upp á gríðarlega mörg frábær tækifæri.“

Sigurður segir skólann bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til þess að auka þekkingu sína undir handleiðslu þekktra sérfræðinga.

„Í MIT gafst mér oft færi á því að hitta og umgangast marga fremstu hugsuði þeirra sviða sem ég var að læra og fá skoðanir þeirra á mínum eigin rannsóknum. Það er einmitt Hannesi Högna Vilhjálmssyni prófessor að þakka að ég sótti um í deildinni minni, en hann útskrifaðist þaðan nokkrum árum áður og stundar nú mjög spennandi rannsóknir við Háskólann í Reykjavík.“

Kynntist „snillingum frá Íslandi“

Íslendingar hafa undanfarið staðið sig vel við nám á erlendis, en skemmst er að minnast þess er nafnarnir Friðrik og Friðrik útskrifuðust úr framhaldsnámi við lagadeild Harvard háskóla. Jafnframt útskrifaðist Íslendingurinn Sigtryggur Kjartansson úr grunnnámi við MIT síðastliðinn föstudag, en Sigurður segir nokkra flóru Íslendinga vera í skólanum.

„Það má eiginlega segja að MIT sé góð leið til þess að kynnast snillingum frá Íslandi. Ég hef verið svo heppinn að eignast hér marga góða vini, t.d. nafna minn Sigurð Pétur Magnússon sem útskrifaðist með mér núna, Höskuld Pétur og Ásbjörgu sem gerðu hið sama í fyrra, Jóel Karl Friðriksson þar áður og fleiri.“

Við nám sitt fékk Sigurður styrki fyrir skólagjöldum og uppihaldi og þurfti því ekki að punga út þeim gríðarháu fjárhæðum sem nám við bandaríska háskóla kostar oft á tíðum. Hann fékk upphaflega styrk frá Stofnun Leifs Eiríkssonar og hefur síðan notið bæði styrkja frá skólanum og rannsóknardeild bandaríska sjóhersins. Námsferill Sigurðar við MIT spannar nokkur ár, en hann segir námið hafa verið krefjandi og gefandi að ljúka því með góðum árangri.

„Námskeiðin voru mörg mjög erfið og rannsóknarverkefnin krefjandi. Svo tók þetta langan tíma, en alls hef ég verið hér í sjö ár, tvö í meistaranámi og fimm til viðbótar í doktor. Það er samt mjög gefandi að hafa klárað og vera ánægður með árangurinn.“

Stefnan tekin á Kísildalinn

Dvölin snerist þó ekki aðeins um nám, en sparkbox var Sigurði einnig ofarlega í huga í MIT.

„Þegar á heildina er litið þá fannst mér þetta mjög skemmtilegt. Góðir vinir og nálægð skólans við Boston gerðu dvölina mun skemmtilegri, það er gaman að vera í göngufæri við stórborg og allt sem hún hefur upp á að bjóða. Félagslífið við skólann er ansi skemmtilegt, ég stýrði til dæmis „kickboxing“ klúbbi skólans í nokkur ár.“

Kalifornía er næsti áfangastaður Sigurðar, en hann hefur ráðið sig í vinnu í Kísildalnum.

„Ég er mjög spenntur fyrir því að vinna í Kísildalnum og réð mig því til vinnu hjá Samsung Research í San Francisco. Þar mun ég vera hluti af litlu rannsóknarteymi sem skoðar hugmyndir að framtíð þess hvernig við notum snjalla skjátækni.“

Frétt mbl.is: Nafnar útskrifuðust úr Harvard

Frétt mbl.is: Í heiðursfélagi með fyrrverandi forsetum

Sigurður ásamt félögum sínum á Fenway Park. Frá vinstri: Jónas …
Sigurður ásamt félögum sínum á Fenway Park. Frá vinstri: Jónas Bergmann Björnsson, Sigurður Örn Aðalgeirsson, Sigurður Pétur Magnússon og Höskuldur Pétur Halldórsson. Ljósmynd/Sigurður Örn Aðalgeirsson
Hópur Sigurðar mætti með heimagerða víkingahjálma úr álpappír þegar hann …
Hópur Sigurðar mætti með heimagerða víkingahjálma úr álpappír þegar hann varði doktorsritgerð sína. Ljósmynd/Sigurður Örn Aðalgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert