Mikið var að gera hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í dag og fóru sjúkraflutningamenn í 70 flutninga á dagvaktinni. Sneiðmyndatækið á Landspítalanum bilaði í gær, líkt og greint var frá á mbl.is í dag, og er nú beðið varahlutar að utan til þess að viðgerð geti hafist.
Á meðal tækið er bilað þarf að flytja sjúklinga sem koma á bráðamóttöku á Hringbraut, þurfi þeir á sneiðmyndatöku að halda.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkivliðinu fór að bæta nokkuð í flutningana þegar leið á daginn. Misjafnt er hversu margir flutningar eru á dag en oft eru um 50 til 60 flutningar á dagvaktinni og 20 til 30 á næturvaktinni.
Þegar er búið að gera ráðstafanir vegna álagsins og hefur einni vakt, einum bíl, verið bætt á dagvaktirnar um helgina. Þó nokkra flutninga má rekja beint til bilunarinnar þó einnig hafi verið eitthvað um forgangsflutninga.
Frétt mbl.is: Sjúklingar fluttir fram og til baka