„Við metum ástandið þannig að það sé ekki neitt að þokast í samkomulagsátt,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, en félagið fundaði með fulltrúum samninganefndar ríkisins hjá Ríkissáttasemjara.
Fundurinn hófst klukkan 15 í dag og stóð hann yfir í hálftíma. Þorbjörn segir að ríkissáttasemjari vilji halda viðræðunum áfram og verður annar fundur í deilunni á fimmtudag klukkan 15.
„Það mjakast ekki neitt í átt að samkomulagi og styttist náttúrulega í mánudaginn,“ segir Þorbjörn og vísar til boðaðra verkfallsaðgerða Læknafélagsins. Náist ekki samkomulag hefjast þær 27. október og standa til 11. desember. Þó verður verkfall aðeins ákveðna daga og aðeins mun hluti lækna fara í verkfall hverju sinni.
Vinna lækna í verkfalli verður í samræmi við undanþágulista sem fjármálaráðuneytið birti í auglýsingu nr. 101/2014 og er gert ráð fyrir að á þeim dögum sem efnt er til verkfalla verði hverju sinni tryggð sambærileg mönnun og tíðkast á frídögum.