Boðaðar verkfallsaðgerðir Læknafélags Íslands munu meðal annars hafa töluverð áhrif á nemendur á fjórða, fimmta og sjötta ári í læknisfræði í Háskóla Íslands sem stunda verknám á Landspítalanum.
Að loknu þriggja ára bóknámi hefja nemendur á fjórða ári verknám á vöktum á spítalanum. Næstu þrjú árin fylgja þeir læknum á flestum deildum og læra og setja sig í verklegu hlið starfsins.
Frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 27. október til miðnættis aðfaranótt miðvikudagsins 29. október 2014, eða í tvo sólarhringa, leggja læknar á kvenna- og barnasviði Landspítala niður störf. Gert er ráð fyrir að á þeim dögum sem efnt er til verkfalla verði hverju sinni tryggð sambærileg mönnun og tíðkast á frídögum.
Þá daga sem boðað verkfall stendur yfir mega nemar á þeim deildum þar sem það stendur yfir ekki mæta á spítalann og fylgja læknunum, kennurum sínum. Öll kennsla þar sem sjúklingar koma nálægt er óheimil.
„Þetta mun hafa mismikil áhrif á mismunandi áfanga. Þetta mun hafa mjög mikil áhrif á einstaka áfanga þar sem nemendur verja miklum tíma á deildum spítalans og gætu nemendur misst af allt að helmingi tímans,“ segir Ragnhildur Hauksdóttir, formaður Félags læknanema í samtali við mbl.is, aðspurð um áhrif boðaðra verkfallsaðgerða á nemendur í læknisfræði í HÍ.
Takist ekki samningar á tímabilinu sem verkfallsaðgerðirnar hafa verið boðaðar gætu sumir nemanna misst um 40% tímans sem þau eiga að verja við verklegt nám á deildunum.
Þetta eru til að mynda nemar sem eiga að fylgja læknum á gjörgæslu. Læknanemarnir verða að ljúka vissum fjölda vakta á hverri deild og því verða þeir að vinna vaktirnar sem þeir kunna að missa af vegna verkfallsaðgerðanna síðar.
Á mánudaginn stendur til að nemar á fimmta ári gangist undir bóklegt og verklegt próf í barnalæknisfræði. Komi til verkfalls verður prófinu frestað en um verkfallsbrot væri að ræða ef læknararnir sem kenna áfangann mæta og halda prófið.
Félag læknanema sendi frá sér ályktun í gær þar sem meðal annar kom fram að félagið harmaði að Læknafélag Íslands og Skurðlæknafélag Íslands sjái sig knúin til að boða til verkfalls.
„Við styðjum læknana 100% í þeirra kjarabaráttu, þau eru að ryðja brautina fyrir okkur. Við viljum ekki stuðla að verkfallsbrotum en viljum á sama tíma tryggja að kennsla fari ekki úr skorðum,“ segir Ragnhildur.
Auk lækna á kvenna- og barnasviði Landspítalans leggja læknar á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og á rannsóknarsviði Landspítala niður störf þessa tvo sólarhringa.
Á heimasíðu Læknafélags Íslands má lesa nánar um boðaðar verkfallsaðgerðir Læknafélags Íslands.